Landspítali hefur gefið frá sér svar við færslu Theódórs Skúla Sigurðssonar, formanns Félags sjúkrahúslækna, á Facebook þar sem hann gagnrýnir stjórnendur og ráðamenn spítalans.
Í tilkynningunni gerir spítalinn athugasemdir við nokkrar fullyrðingar sem koma fram í málflutningi formannsins.
Í færslunni ítrekar Theódór kröfur stjórnenda um sparnaðaraðgerðir og gagnrýnir þá fullyrðingu að slæm staða spítalans sé sögð stafa af mönnunarvanda en ekki fjárskorti. Í tilkynningunni segir að hið rétta sé að forstjóri spítalans og aðrir stjórnendur hafa ítrekað vakið máls á vanfjármögnun spítalans, meðal annars í samtölum við ráðamenn á nýlegum fundum.
Þá segir Theódór í færslu sinni að síðasta vetur sóttu mun fleiri hjúkrunarfræðingar um vinnu á gjörgæsludeildunum, en færri fengu en vildu þar sem takmakaður fjöldi staða var í boði. Landspítali telur þetta hins vegar ekki rétt og segir að öllum þeim sem hæfni höfðu og starfsleyfi hafi verið boðið starf, „utan eins sem hélt áfram störfum á kjarnanum og annars sem starfar áfram á sviðinu.“
Segir spítalinn að nú sé auglýst eftir hjúkrunarfræðingum á gjörgæslu enda sé starfsemi gjörgæsludeilda gríðarlega mannaflafrek og gera þurfi ráð fyrir 90-100 starfsmönnum á sólarhring til að unnt sé að reka deildirnar. Ekki 60 eins og Theódór heldur fram.
Þá segir spítalinn að ekki sé rétt að starfsfólki sé ekki boðin 25% lenging á fríum séu þau tekin utan sumarorlofstíma. „Um er að ræða breytingu á kjarasamningum þar sem kveðið er á um að geti vinnuveitandi ekki veitt sumarfrí á sumarorlofstíma þá fær starfsmaður 25% lengingu á sitt sumarfrí. Þessu ákvæði hefur meðal annars verið beitt í sumar,“ segir í tilkynningunni.
Theódór nefnir að enginn sumarbónus hafi verið í boði fyrir starfsmenn sem hefur oftast tíðkast en spítalinn vill meina að nýir miðlægir kjarasamningar komi í staðinn.
Þá áréttar spítalinn að launahækkanir og önnur starfskjör er samið í miðlægum kjarasamningum milli stéttarfélaga og fjármálaráðuneytis, án aðkomu Landspítala.
„Markmið okkar allra er upplýst og uppbyggileg umræða um spítalans og framtíð hans. Farsælla er þegar slík umræða er byggð á staðreyndum og er áhugasamt starfsfólk hvatt til að afla sér gagna,“ segir í tilkynningunni frá spítalanum.