Losun frá flugi aukist milli ársfjórðunga

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningi Hagstofu Íslands hefur losun koltvísýringsígilda vegna flugreksturs íslenskra …
Samkvæmt bráðabirgðaútreikningi Hagstofu Íslands hefur losun koltvísýringsígilda vegna flugreksturs íslenskra flugfélaga aukist milli ársfjórðunga. GABRIEL BOUYS

Losun koltvísýringsígilda frá flugsamgöngum hefur aukist milli ársfjórðunga en hún er enn langt frá mælingum fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Þær miklu breytingar sem hafa orðið í losun koltvísýrings frá flugi skýrast einna helst af fækkun íslenskra fyrirtækja í flugrekstri og samdráttar vegna yfirstandandi faraldurs, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningi Hagstofunnar var losun koltvísýringsígilda frá flugsamgöngum íslenskra flugfélaga á öðrum ársfjórðungi 2021 um 90 kílótonn. Er það aukning um 41,7% frá fyrsta fjórðungi ársins og 54,1% hærra gildi en á öðrum ársfjórðungi 2020 sem markast af mestu samkomutakmörkunum í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins.

Losun á öðrum ársfjórðungi 2021 var 84% minni en losun á öðrum ársfjórðungi 2018 þegar losun frá flutningum með flugi var mest eða um 595 kílótonn.

Losun vegna flutninga með flugi eftir ársfjórðungum 2016-2021.
Losun vegna flutninga með flugi eftir ársfjórðungum 2016-2021. Hagstofa Íslands

Bráðabirgðaútreikningur Hagstofunnar á losun vegna flutninga með flugi byggir eingöngu á rekstri íslenskra flugfélaga en ekki flugi erlendra fyrirtækja. Flugrekstur nær bæði yfir farþega- og fraktflug en það síðarnefnda varð fyrir minni áhrifum vegna faraldursins.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að losunartölur fyrir 2021 reiknist út frá innflutningi eldsneytis til landsins og eldsneytiskaupum íslenskra fyrirtækja erlendis. Eldsneyti sem selt er til erlendra flugrekstraaðila er áætlað út frá komutölum og dregið frá heildarsölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert