Dagurinn í dag er heitasti dagur ársins og mögulega sá heitasti sem mælst hefur í ágústmánuði á Íslandi frá upphafi, að sögn Teits Arasonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
„Mér sýnist Hallormsstaður vera búinn að gægjast í 29,3 stig. Hlýjasta mælingin hingað til í sumar var 27,5 gráður á Akureyri þann 20. júlí, þannig að þetta er það hlýjasta sem mælst hefur á árinu. Þetta er jafnframt hlýjasta mælingin á landinu síðan í júlí-hitabylgjunni 2008, þá mældust 29,7 gráður á Þingvöllum,“ segir Teitur.
Honum þykir líklegt að hitametið fyrir ágústmánuð verði slegið aftur á morgun en þá er spáð enn meiri hita á Austurlandi.
„Ástæðan fyrir því að við höldum að hlýjasti dagurinn verði á morgun er að þá er sunnanátt sem er líkleg til að halda á móti hafgolu, þá er spáð litlum sem engum skýjum á Austurlandi þannig að sólin getur hitað upp óhindrað.“
Hæsti hiti sem mælst hefur hérlendis eru 30,5 gráður og var það á Teigarhorni í Berufirði, syðst á Austfjörðum, árið 1939. Spurður hvort möguleiki sé á að það met falli á morgun segir Teitur það ekki útilokað þótt honum þyki það heldur ólíklegt.
Hvað þarf að gerast til að hitinn skríði upp í 30 gráðurnar?
„Það eru bara svona smáatriði, eins og t.d. að það myndist algjört logn, sólin skíni, engin hafgola og engin ský á himni. Það þarf í raun allt að ganga upp. Þetta er viðkvæmt jafnvægi.“
Hægt er að fylgjast nánar með veðurspánni á vef mbl.is.