Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrverandi lögreglustjóri og einn helsti aðdáandi The Rolling Stones á Íslandi, var sleginn yfir fregnum dagsins af andláti Charlie Watts, trommara sveitarinnar. Hann hafði farið á 37 tónleika með Watts sem lést í dag á sínu áttugasta aldursári.
Ólafur segir fréttir dagsins hafa komið flatt upp á sig. „Já, ég var mjög sleginn. Af því að ég var að vonast til þess að hann myndi komast yfir þetta. En ég veit ekki nákvæmlega hvað var að,“ segir Ólafur en Watts greindist með krabbamein í hálsi um miðbik síðasta áratugar og þurfti vegna þess að draga sig í hlé frá tónleikahaldi og upptökum um nokkurt skeið.
„Ég náði nú að sjá hann síðast með Stones á tónleikum 2018 í því sem mig minnir að hafi verið síðustu tónleikarnir í ferðalagi þeirra um Evrópu það árið. Það var í Twickenham,“ segir Ólafur en Stones hafa verið í tæplega tveggja ára hléi frá tónleikahaldi vegna heimsfaraldurs og heilsubrests Mick Jaggers, söngvara sveitarinnar.
Watts byrjaði að tromma með The Rolling Stones 12. janúar 1963 en sveitin kom fyrst saman árið áður, 1962. Watts hafði áður verið trymbill í hljómsveitinni Alexis Korner's Blues Incorporated en blúsinn sem Watts spilaði þar átti eftir að hafa mikil áhrif á tónlist The Rolling Stones:
„Hann rann algjörlega inn í blúsinn þegar hann kom frá Blues Incoroprated og yfir í Stones. Það er alveg ljóst að hann límdi saman þessa tónlist,“ segir Ólafur og vitnar í gítarleikara sveitarinnar. „Keith Richards sagði enda einu sinni að án Charlie Watts þá væri Rolling Stones ekki neitt... en Charlie Watts væri hins vegar eitthvað án Stones,“ bætir Ólafur við.
Spurður hvort hann gæti hugsað sér að sjá tónleika með sveitinni án Watts bendir Ólafur á að Steve Jordan, sem komi í stað Watts á tónleikaferðalögum með Stones, sé hinn ágætasti trommuleikari. „Hann var með X-Pensive Winos og spilaði á plötunum hans Keith Richards þegar það var erfitt á milli þeirra Keiths og Mick. Þannig hann mun spila núna með þeim á þessum tónleikum í Bandaríkjunum í september og fram í nóvember.“
Það hljóta þó að verða viðbrigði fyrir Ólaf að sjá Stones án Watts eftir að hafa farið á tugi tónleika með hann á kjuðunum: „Ég sá Watts 34 sinnum með Stones og svo þrjú kvöld í röð á Ronnie Scott's Jazz House í London þar sem hann tók tvær lotur með einu hléi á milli.“
Árið 2001 gerði Ólafur sér ferð til Lundúna á þrenna tónleika með Charlie Watts and the Tenet sem var djasssveit trommarans. Kvöldin voru eftirminnileg að sögn Ólafs sem rifjar upp skemmtilega sögu:
„Maður á kannski ekki að segja frá svona löguðu en einn daginn fór ég upp í Finnsbury Park að sjá meðal annars Neil Young. Og það rigndi þessi reiðinnar býsn þannig maður var drulluskítugur þegar maður kom aftur á Ronnie Scott's Jazz House.
Með mér var Ólafur Páll Gunnarsson sem var handviss um að okkur yrði ekki hleypt inn á tónleikanna. Hann varð síðan mjög hissa þegar sú sem sá um að taka á móti tónleikagestum heilsaði mér með virktum, enda hafði ég verið þarna tvö kvöld í röð áður. Að vísu í jakkafötum með bindi kvöldin áður. Síðan sátum við fyrir framan sviðið og fylgdumst með Charlie Watts.“
Ólafur heldur því fram að Watts hafi verið besti trommuleikarinn, þó hann hafi ekki fengið þann dóm alls staðar. „Watts er ekki með neinar krúsídúllur. Hann er einhver sá taktfastasti trommuleikari sem ég hef hlustað á og ég hef hlustað á þá marga,“ segir Ólafur og heldur áfram:
„Ég tel að það sé alveg klárt að rokkið hafi misst einn af sínum allra bestu trommuleikurum í dag og Stones trúlega besta taktinn sem þeir hafi átt.“