Nýja vínbúðin hóf sölu á Covid-19 sjálfsprófum í gærmorgun, mánudagsmorgun, áður en reglugerð um þau var breytt en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, í samráði við sóttvarnarlækni, breytti síðdegis í gær reglugerðinni sem fjallar meðal annars um hrað- og sjálfspróf á þann veg að einstaklingum sé heimilt að nota sjálfspróf til greiningar Covid-19 á sjálfum sér.
Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju vínbúðarinnar segir að hann hafi haft samráð við lögfræðinga er hann hóf sölu á sjálfsprófunum og að ljóst hafi verið að engin heimild hafi verið fyrir því að banna sölu á þessum prófum á Íslandi, þar sem þau væru CE-vottuð og viðurkennd í öðrum Evrópuríkjum.
„Við töldum það fullkomlega heimilt að hefja sölu á prófunum og það er ágætt að heilbrigðisráðherra staðfesti það stuttu síðar,“ segir Sverrir.
Sverrir segist hafa séð umræðu um Covid-sjálfspróf á Íslandi og séð að fólk væri að nýta þau áður en ýmsar veislur færu fram.
„Þetta er mjög einfalt í notkun og eitthvað sem er alveg sjálfsagt og eðlilegt að nota, miðað við hvernig staðan er í dag. Salan hefur gengið mjög vel og það hafa verið feiki góðar viðtökur og fólk er ánægt með þetta framtak.“
Hann segist sjálfur búa í Bretlandi og þar séu það jafnan skilyrði að nota þurfi slík próf áður en farið er í leikhús eða álíka mannamót. „Þetta getur hjálpað til við að finna út hvort menn eru smitaðir eða ekki, þótt þetta sé ekkert hundrað prósent frekar en annað að þá getur þetta gefið vísbendingar.“