Umsvif gjörgæsludeilda Landspítala hafa verið aukin um allt að 70% þegar mikið hefur legið við í þessari fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins. Landspítali birti í dag myndskeið af flutningum Covid-sjúklings í öndunarvél frá gjörgæsludeildinni í Fossvogi og til Hringbrautar.
Myndbandið er birt undir heitinu Innsýn sem er röð mynda og myndbanda frá spítalanum sem eiga að veita almenningi skilning á hinum ýmsu verkefnum spítalans.
„Flutningarnir eru sérstaklega vandasamir vegna þrengsla í húsnæðinu og þeirrar staðreyndar að um glettilega langa leið þarf að ferðast. Þess má geta að barkaþræddir sjúklingarnir eru ekki taldir mjög smitandi þar sem öndunarslöngur eru ekki rofnar á milli barkaslöngu og öndunarvélar og er þess vel gætt á meðan flutningi stendur,“ segir í færslu landspítalans.