Rekstraraðilar Gauksins greindu frá því á Facebook-síðunni staðarins í dag að þeir hafi neyðst til þess að aflýsa karókíkvöldi og loka staðnum í kvöld vegna ætlaðrar hópferðar Covid-smitaðra.
„Við tökum Covid-ráðstafanir alvarlega. Við heyrðum af því að hópur Covid-sýktra hefði í hyggju að mæta á karókí-kvöldið okkar í kvöld. Til verndar starfsfólki okkar og annarra gesta ákváðum við vegna þess að loka staðnum í kvöld,“ segir í tilkynningu frá Gauknum.
Gaukurinn, eða Gaukur á stöng, er einn elsti skemmtistaður miðbæjarins en hann var opnaður í nóvember 1983. Í seinni tíð hefur Gaukurinn skapað sér sérstöðu með því að bjóða upp á ýmiss konar hinseginkvöld og dragsýningar.