Tilkynningum um kynferðislegt ofbeldi fjölgaði

Tilkynningum til barnaverndar fjölgaði verulega á fyrri helmingi ársins.
Tilkynningum til barnaverndar fjölgaði verulega á fyrri helmingi ársins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði verulega á fyrri helmingi ársins eða um 6,3% miðað við fyrstu sex mánuði síðasta árs en þá voru tilkynningarnar einnig mun fleiri en á sama tíma á árinu 2019. Alls bárust 6.830 tilkynningar til barnaverndarnefnda á fyrri helmingi yfirstandandi árs og voru þær hátt í 1.300 fleiri en á sama tímabili fyrir tveimur árum.

Þetta kemur fram á nýju yfirliti Barnaverndarstofu. Þar er á það bent að tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis gegn börnum fjölgaði mikið á milli ára. „Á fyrstu 6 mánuðum ársins bárust 390 tilkynningar vegna kynferðislegs ofbeldis, eða yfir 65% fleiri tilkynningar en á sama tímabili áranna á undan,“ segir í umfjöllun Barnaverndarstofu.

„Sem fyrr, bárust flestar tilkynningar frá lögreglu. Tilkynningum frá skólum og heilbrigðiskerfinu hefur farið fjölgandi. Á fyrsta hálfa ári 2021 bárust 1.118 tilkynningar frá skólakerfinu, samanborið við 836 og 858 tilkynningar á sama tímabili árið 2020 og 2019, eða yfir 30% fleiri tilkynningar. Þá bárust 21,5% fleiri tilkynningar frá heilbrigðisþjónustu á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 sé miðað við sama tímabil ársins 2020.“

Í umfjöllun um heildarfjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda kemur fram að flestar tilkynningar á fyrstu sex mánuðum ársins voru vegna vanrækslu, líkt og árin á undan eða 42,9% allra tilkynninga. Tilkynningum vegna vanrækslu fjölgaði um 5% á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi árs.

Næstflestar tilkynningar sem nefndunum bárust voru vegna áhættuhegðunar barna eða, 28,4% allra tilkynninga og fram kemur að á fyrri hluta ársins bárust 15,8% fleiri tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna en á sama tímabili í fyrra.

„27,9% tilkynninga sem bárust á fyrstu 6 mánuðum ársins 2021 voru vegna ofbeldis og um 1% allra tilkynninga varðaði heilsu eða líf ófædds barns,“ segir í umfjöllun Barnaverndarstofu.

489 vegna líkamlegs ofbeldis

Barnaverndarnefndir fá einnig margar tilkynningar um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Þær voru alls 489 á fyrri helmingi ársins og 17% fleiri en á sama tímabili á seinasta ári. Þá hefur tilkynningum vegna tilfinningalegrar vanrækslu barna einnig fjölgað á milli ára. Á fyrstu 6 mánuðum ársins 2021 bárust 32,3% fleiri tilkynningar vegna tilfinningalegrar vanrækslu en á sama tímabili ársins 2020, segir í umfjöllun Barnaverndarstofu.

Neyðarlínan (112) tekur við tilkynningum um ofbeldi gagnvart börnum og beinir þeim áfram til barnaverndarnefnda viðkomandi svæða. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert