Útlit fyrir tilslakanir á fimmtudag

Svandís bendir á að faraldurinn sé á hægri niðurleið og …
Svandís bendir á að faraldurinn sé á hægri niðurleið og segir sóttvarnalækni telja að núgildandi aðgerðir hafi varnað því að ástandið yrði verra. mbl.is/Árni Sæberg

Minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis var að detta í hús hjá heilbrigðisráðherra sem fer nú yfir tillögurnar. Útlit er fyrir að tilkynnt verði um einhverjar tilslakanir á fimmtudag.

„Ég er ekki búin að fá ráðrúm til að taka afstöðu til þeirra enn þá, þurfum að fara yfir þær í ráðuneytinu og skoða meðal annars framkvæmanleikann,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Tilkynnt á fimmtudag

Ríkisstjórnin fundaði í morgun en aldrei þessu vant var lítið rætt um heimsfaraldurinn á þeim fundi, að sögn Svandísar.

Ríkisstjórnin mun þó hittast aftur á fimmtudag til að fara yfir tillögur sóttvarnalæknis og einnig yfir reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra sem snýr að sjálfsprófum. 

Að þeim fundi loknum má búast við að tilkynnt verði um afléttingar á einhverjum takmörkunum sem hafa verið í gildi. 

Tilefni til tilslakana

Svandís bendir á að faraldurinn sé á hægri niðurleið og segir sóttvarnalækni telja að núgildandi aðgerðir hafi varnað því að ástandið yrði verra. „Hann telur forsendur til að leggja til einhverjar afléttingar.“

„Við höfum verið sammála um að hafa eins litlar takmarkanir og hægt er en fara um leið varlega og taka ekki of stór skref. Þetta er þessi endalausi línudans milli þess að verja heilbrigðiskerfið og leyfa samfélaginu að hafa sinn vanagang.“

Aukið áfallaþol spítalans

Í dag lágu tuttugu og tveir inni á Landspítala. „Það er náttúrulega töluvert en ég tel ótvírætt að þessar bráðabirgðaaðgerðir sem við höfum gripið til, bæði innan spítalans og utan, hafi ýtt þolmörkunum aðeins áfram,“ segir Svandís. 

„Við sjáum fram á að geta bætt við hágæslurýmum, sem útheimta ekki eins mikla mönnun og gjörgæslurýmin, á næstu vikum bæði á Fossvogi og Hringbraut.“ Svandís telur að sú breyting muni auka áfallaþol spítalans. 

Styrkleikar og veikleikar

Undir kringumstæðum sem þessum koma bæði fram veikleikar og styrkleikar allra heilbrigðiskerfa, að sögn Svandísar.

Styrkleikana í íslenska kerfinu telur Svandís vera vel menntað og lausnamiðað fólk sem sé fljótt að bregðast við, tileinka sér og þróa nýjar leiðir. 

Veikleikarnir eru að hennar mati að spítalinn var ekki nógu vel tækjavæddur og að styrkja þurfi vissa þætti sem lúta að innviðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert