Vara við inntöku krems með ivermektín

Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Lyfjastofnun og embætti landlæknis hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu sem þar sem áréttað er að Soolantra-krem sé ekki ætlað til inntöku.

Kremið er eingöngu ætlað til notkunar útvortis á húð til meðferðar við bólum og þrymlum sem fylgja húðsjúkdómnum rósroða.

Covid-19-sjúklingar taki kremið um munn

Kremið inniheldur virka innihaldsefnið ivermektín og hefur bólgueyðandi áhrif. Auk þess veldur lyfið dauða sníkjudýra en greint hefur verið frá því að svokallaðir demodex-maurar eigi þátt í húðbólgu.

Fram kemur í tilkynningunni að Lyfjastofnun og embætti landlæknis hafi áreiðanlegar upplýsingar um að sjúklingar með Covid-19 hafi tekið lyfið um munn og rökstuddan grun um að það hafi haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér.

Aukaverkanir sem geta hlotist af inntöku kremsins eða ofskömmtun ivermektíns geta verið útbrot, bjúgur, höfuðverkur, sundl, þróttleysi, ógleði, uppköst og niðurgangur.

Fleiri aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um eru krampar, ósamhæfðar vöðvahreyfingar, mæði, kviðverkir, náladofi og ofsakláði.

Lyfjastofnun og embætti landlæknis hafa gripið til tímabundinna ráðstafana og ákveðið að Z-merkja lyfið og takmarka þar með ávísun þess við sérfræðinga í húðsjúkdómum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert