„Þetta eru þær tillögur sem við gerum núna en það er alveg ljóst að við munum þurfa að bregðast áfram við þessum málum og verður það gert í samræmi við önnur lönd,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra um nýsamþykktar tillögur flóttamannanefndar.
Miðað er við að Ísland muni taka á móti 120 Afgönum. Ásmundur segir þó að það sé varhugavert að festa sig í ákveðnum tölum.
Til marks um það hafi fjölskyldur komið til landsins síðasta sólarhringinn með einstaklinga í för með sér sem ekki voru með í upphaflegum tölum.
Utanríkisþjónustan mun beita sér fyrir því, í samvinnu við önnur ríki, að koma þeim einstaklingum til landsins sem Ísland hyggst taka á móti í samræmi við tillögur flóttamannanefndar, að sögn Ásmundar.
„Það þarf að ná í þessar fjölskyldur, sem er ekki sjálfgefið. Svo þurfa þær að komast að flugvellinum og inn á hann, um borð í vélina sem þarf að geta lent og tekið á loft. Allt eru þetta miklar áskoranir í því ástandi sem nú ríkir í Afganistan.“
Því metur Ásmundur það erfitt að segja til um hve hratt og vel muni ganga fyrir sig að taka á móti þessu fólki.
„Flóttamannanefnd mun halda áfram að vinna að þessu og það er alveg ljóst að alþjóðasamfélagið mun áfram þurfa að taka á málum gagnvart þessu svæði og þeim einstaklingum sem þaðan streyma,“ segir hann.
Skipaður hefur verið aðgerðahópur sem vinnur að því að undirbúa móttöku flóttamannanna. Vinna var þegar hafin við undirbúning á móttöku þeirra sem þegar eru komnir frá Afganistan, en fer nú í formlegri farveg.
Ásmundur bendir á að staða Íslands sé ólík margar annarra þjóða þar sem íslensk yfirvöld voru ekki með eiginlega starfsemi í Afganistan.