Fátítt er að vélar, líkt og bandarísku B-2-herþoturnar, hafi viðkomu hér á landi að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.
Vélarnar þrjár lentu á Keflavíkurflugvelli á mánudag en einungis 21 slík vél hefur verið framleidd og er þetta dýrasta flugvél sögunnar en hver vél kostar yfir 90 milljarða króna. Þær munu hafa tímabundið aðsetur hér á landi og verða á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli næstu daga vegna æfinga.
Æfingin er liður í samvinnu og samstarfi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Alls taka 200 liðsmenn bandaríska flughersins þátt í verkefninu.
Að sögn Ásgeirs þarf allur erlendur liðsafli sem starfar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli að gangast undir PCR-próf, fyrir og eftir komu til landsins, auk þess sem flestir eru bólusettir.
„Framkvæmd sóttvarna er unnin í samvinnu við embætti landlæknis og aðra þá er að sóttvörnum koma hér á landi en sértækar reglur gilda um framkvæmdina.“
Taka einhverjir Íslendingar þátt eða koma að æfingunum?
„Starfsfólk Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli kemur að æfingunni eins og á við um öll verkefni á öryggissvæðinu sem það sinnir í umboði utanríkisráðuneytisins. Aðkoma Íslands að þessu verkefni felst að öðru leyti fyrst og fremst í gistiríkjastuðningi,“ segir Ásgeir.
Þá segir hann að loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins fari einnig fram frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli um þessar mundir en að auki er þar liðsafli á vegum bandaríska sjóhersins sem sinnir venjubundnu kafbátaeftirliti. Viðdvöl B-2-vélanna hefur hins vegar ekki áhrif á þessi verkefni.