Gæsavatnaleið norðan Tungnafellsjökuls hefur verið lokað vegna vatnavaxta og þá er Sprengisandsleið sögð ófær vegna vatnavaxta í Hagakvísl, skammt norðan Nýjadals.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Fólki er ekki ráðlagt að fara Sprengisandsleið nema á stórum jeppum. Ekki er heldur ráðlagt að fara um Gæsavatnaleið nema á vel útbúnum stórum jeppum.
Í gær þurfti að aðstoða nokkra aðila á þessum leiðum og voru björgunarsveitir úr Eyjafirði og Skagafirði fengnar í þau verkefni, að sögn lögreglunnar.
Lögreglunni höfðu í morgun borist upplýsingar um fólk í vandræðum á þessum sömu slóðum og hvatti hún fólk til að vera vel útbúið.