Meirihluti landsmanna vill að mun meira fé verði sett í rekstur Landspítalans en nú er gert. Alls vilja um 57% þeirra sem taka afstöðu til þessa að mun meira fé verði varið í rekstur Landspítala, 28% vilja að aðeins meira fé verði sett í rekstur Landspítala og 13% vilja að það haldist óbreytt.
Þetta eru niðurstöður könnunar sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið.
Þar segir að konur séu líklegri en karlar til að vera hlynnt auknum fjárveitingum. Lítill sem enginn munur er þó á skoðunum fólks á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru þó líklegastir til þess að vilja að fjárveitingar til Landspítala haldist óbreyttar. Alls 42% þeirra vilja að svo sé en 6% þeirra vilja að fjárveitingar lækki á meðan 20% sjálfstæðismanna vilja að miklu meira fé sé varið í rekstur spítalans en 32% aðeins meira fé.
Í frétt Fréttablaðsins, þar sem niðurstöður könnunarinnar eru kynntar, segir að töluverður munur hafi verið á skoðunum stuðningsmanna stjórnmálaflokka.
Þá vill fólk með 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun að fjárveitingar til spítalans haldist óbreyttar á meðan fólk með lægri tekjur vill í um 25% tilfella að fjárveitingar haldist óbreyttar eða lækki. Lítill munur er sagður hafa verið á milli fólks með tilliti til menntunar.
Könnunin var gerð dagana 17.-23. ágúst af Prósenti. Alls tóku 1.251 afstöðu til spurningarinnar og var svarhlutfall 52%.