Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins setti fundinn Heilbrigðiskerfi á krossgötum sem fór fram í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) á Grand Hotel í dag. Hann segir framtíð heilbrigðiskerfisins felast í notendamiðaðri þjónustu og markvissum innkaupum á bestu fáanlegu þjónustunni. Upptaka af fundinum er aðgengileg á netinu.
Í upphafi ítrekaði Halldór að fundurinn og skýrslan sem var kynnt þar hafi ekki verið hent saman í flýti í ljósi komandi kosninga heldur sé þetta afrakstur umfangsmikillar vinnu um heildarsýn á heilbrigðisþjónustu til frambúðar:
„Við erum að horfa miklu lengra og erum að horfa á þetta í miklu stærra samengi og grunnur af því sem við erum að kynna fyrir ykkur hérna í dag er hvernig við sjáum framtíð íslensks heilbrigðiskerfis.
Fyrst og fremst með því að líta í kring um okkur, líta til norðurlanda, læra af því sem vel er gert og heimfæra á heilbrigðiskerfið eins og það blasir við okkur.“
Halldór segir samhug um að allir hafi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Hins vegar sé mikilvægt að margir þjónustuveitendur geti veitt þjónustu til sjúklinga og þeirra sem þurfi aðhlynningu en grunnurinn þurfi alltaf að vera skýr. Ríkið ákveði verð, magn og gæði:
„Ríkið stýrir þessu í gegnum sjúkratryggingakerfið sem byggir á lögum frá árinu 2008. En að þarf að gera gangskör á því að semja við fleiri veitendur heilbrigðiþjónustu til þess að kerfið virki eins og lagt var upp með í fyrstu.“
Almenningur á að gera kröfu til þess að það sé markviss innkaup á heilbrigðisþjónustu og að við kaupum bestu fáanlegu þjónustuna á hagkvæmasta verði hverju sinni að sögn Halldórs sem bendir á að útgjöld til heilbrigðismála séu stærsti einstaki póstur í ríkisútgjöldum.
Halldór segir umræðuna sérlega þarfa í ljósi breyttrar aldursdreifingar þjóðarinnar. Því þurfi að huga að breyttum áherslum í þjónustu við aldraða. „Það liggur í augum uppi að eftir því sem þjóðin eldist eykst kostnaðurinn við rekstur heilbrigðiskerfisins. Almenna reglan er jú sú að eftir því sem við eldumst þurfum við meira að nota heilbrigðiskerfið.“
Þá er bent á fjórar fyrirsjáanlegar lausnir á vanda kerfisins. Hækkun skatta, aukin greiðsluþátttaka og skerðing þjónustu en Halldór sér hvorki fyrir sér sátt né áhuga á þessum áformum. Fjórðu leiðina segir hann flesta verið sammála um sem sé að ná aukinni hagræðingu í heilbrigðiskerfi og aukinni skilvirkni með því að borga fyrir hagræði og framleiðslu.
Í nýjustu tölum Embættis landlæknis fengu einungis 40% þjónustu innan tilskilins tíma. Halldór vill leggja áherslu á það sem heitir þjónustutrygging: „Við sem notendur heilbrigðisþjónustunnar eigum rétt á því að það skipti okkur ekki meginmáli hvernig þjónustan er veitt. Hvort það sé ríkið sem veiti hana eða einkaaðilar eða þá félagasamtök. Við eigum einfaldlega heimtingu á því að fá úrlausn okkar mála innan tilskilins tíma.“
Halldór bendir á fyrirkomulagið í Svíþjóð þar sem svokölluð þjónustutrygging sé við lýði byggist á þessu. Þar hafi sjúklingar hafa rétt á því að fá úrlausn sinna vandamála innan tilskilins tíma og ef sá aðili sem hann leiti til getur ekki veitt hana innan þess tíma þarf hann að finna leið til að gera það í gegnum annan aðila og bera kostnaðinn af því.
„Þetta tel ég vera eitthvað sem við getum náð sátt um í íslensku samfélagi. Að við séum ekki að gera rekstrarform að einhverju bitbeini heldur akkúrat hvernig við getum látið sjúklinginn vera í fyrsta sæti og að hann sé það sem allt hverfist um,“ segir Halldór.
„Stundum blása vindarnir frá vinstri, stundum frá hægri og stundum frá miðjunni. En það á bara ekki að koma sjúklingnum við hvernig ríkisstjórn er í landinu á hverjum tíma. Við eigum að geta gert meiri kröfu til okkar sjálfra og samfélagsins en að pólitískir vindar eigi ekki að geta gjörbreytt heilbrigðiskerfinu á skömmum tíma.“