Þróttarar slá skjaldborg um Vöku

Skiptar skoðanir eru á starfsemi Vöku við Héðinsgötu.
Skiptar skoðanir eru á starfsemi Vöku við Héðinsgötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir koma fram í athugasemdum íbúa í Laugarneshverfi við umsókn Vöku hf. um endurnýjað starfsleyfi fyrirtækisins að Héðinsgötu 2. Frestur til athugasemda rann út á dögunum og í síðustu viku greindi Morgunblaðið frá því að 65 íbúar hafi tekið sig saman og mótmælt því að fyrirtækinu yrði veitt starfsleyfi.

Samkvæmt upplýsingum frá Rósu Magnúsdóttur, deildarstjóra umhverfiseftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, bárust alls 13 athugasemdir en mismunandi er hversu margir eru að baki hverri athugasemd. Rósa upplýsir að vinnsla á starfsleyfi og greinargerð standi yfir hjá heilbrigðiseftirlitinu.

Leggjast gegn móttökustöð

Eins og komið hefur fram í fréttum Morgunblaðsins hafa íbúar í hverfinu gert ítrekaðar athugasemdir við starfsemi Vöku þar. Starfsleyfi fyrirtækisins var fellt úr gildi í júní en í lok júlí fékk það undanþágu fyrir hluta starfseminnar. Vaka hefur nú sótt um endurnýjun starfsleyfis til loka árs 2023, en starfsleyfið sem fellt var úr gildi átti bara að gilda út þetta ár. Umsókn Vöku er fjórþætt, þ.e. fyrirtækið sækir um sérstakt leyfi fyrir hvern starfsleyfisskyldan hluta starfsemi þess. Þeir hlutar eru móttökustöð fyrir úrgang, bílapartasala, bifreiða- og vélaverkstæði og hjólbarðaverkstæði.

Í umsögnum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er ekki lagst gegn þremur síðastnefndu hlutum umsóknarinnar. Hins vegar telst umsókn um móttökustöð fyrir úrgang ekki vera í samræmi við skipulag svæðisins.

Meirihluti hinna 13 athugasemda sem bárust er jákvæður í garð starfsemi Vöku. Óhætt er að segja að þar kveði við nýjan tón því til þessa hafa gagnrýnendur þess einir látið í sér heyra. Hafa ber þó í huga að eins og áður segir tóku 65 þeirra sig saman um eina athugasemd. Áhugavert er að í jákvæðu athugasemdunum er oftast nær kveðinn sá tónn að vera Vöku sé mikilvæg fyrir íþróttafélagið Þrótt.

„Vaka er umhverfissinnuð starfsemi og skilar sínu og vel það þegar kemur að hringrás endurnýtingar og endurvinnslu. Að auki hefur fyrirtækið stutt íþróttastarf í hverfinu með margvíslegum hætti og til að mynda verið Þrótti ómissandi bakhjarl í fjölbreyttum verkefnum. Samfélagsþáttur starfseminnar er þannig ríkur og bæði ábyrgur og framsækinn,“ segja hjón sem segjast hafa búið í hverfinu í þrjá áratugi.

Yrði áfall að tapa stuðningnum

„Ekki er annað að sjá en að fyrirtækið hafi brugðist vel við gagnrýni um sjónmengun og gagnrýni er varðar hljóðmengun, sem ætti þó frekar að beina að starfsemi við Sundahöfn. Til viðbótar má nefna þá vigt sem félagið hefur gagnvart íþrótta- og tómstundastarfi í hverfinu sem fjárhagslegur bakhjarl. Það yrði t.d. mikið áfall fyrir íþrótta-/Knattspyrnufélagið Þrótt að tapa þeim stuðningi,“ segir í annarri athugasemd sem barst heilbrigðiseftirlitinu vegna umsóknarinnar.

„Ég sit í stjórn knattspyrnudeildar Þróttar og hef því kynnst hversu mikilvægt er að öflug fyrirtæki í hverfinu komi að styrktarmálum. Því miður eru allt of fá fyrirtæki að styðja við öflugt íþróttastarf enVaka gefur ekkert eftir þar. Það skiptir ekki máli hvenær við heyrum í Einari, eiganda Vöku, hann er alltaf mættur með styrk og vinnuframlag, það er ómetanlegt. Ég veit það fyrir víst að ef kosið yrði um þetta mál hefði Vaka betur, ég er í virku samtali við alla aldurshópa í hverfinu og hef heyrt miklu meira af stuðningi heldur en hinu. Bolum ekki vinum okkar í burtu, takk,“ segir í þeirri þriðju.

Fleiri stjórnarmenn í knattspyrnudeild Þróttar láta í sér heyra: „Vitum við af eigin raun að forsvarsmenn fyrirtækisins eru ábyrgir einstaklingar sem hafa það að markmiði að reka fyrirtækið eftir öllum reglum og lögum. Auk þess hefur fyrirtækið verið sterkur og mikilvægur bakhjarl í íþróttastarfi hér í Laugardal t.d. hjá knattspyrnudeild Þróttar þar sem ég, Pála Þórisdóttir, sit í stjórn og hef gert sl. ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert