30 tilkynningar um andlát í kjölfar bólusetninga

30 tilkynningar um andlát hafa borist Lyfjastofnun í kjölfar bólusetningar …
30 tilkynningar um andlát hafa borist Lyfjastofnun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19 sjúkdómnum. Ljósmynd/Lyfjastofnun

30 tilkynningar um andlát hafa borist Lyfjastofnun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19-sjúkdómnum. Bróðurpartur þessa hóps var með staðfestan undirliggjandi sjúkdóm og langstærstur meirihluti eldri en 64 ára.

Þetta kemur fram í sundurliðun tilkynninga vegna gruns um alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetninga á vef Lyfjastofnunar. Stofnunin tekur þó skýrt fram þetta segi ekki til um hvort um orsakasamhengi sé að ræða milli tilvikanna og bólusetningarinnar.

Flestar alvarlegar tilkynningar í kjölfar bólusetningar vörðuðu bóluefni Pfizer, en alls bárust 80 tilkynningar vegna þess. Þar á eftir kom bóluefni AstraZeneca en alls bárust 66 alvarlegar tilkynningar vegna bóluefnis þess fyrirtækis. 28 alvarlegar tilkynningar bárust í kjölfar bólusetningar með bóluefni Moderna og fæstar alvarlegar tilkynningar bárust í kjölfar bólusetningar með bóluefni Janssen, eða alls 13.

Lyfjastofnun tekur fram að mikilvægt sé að hafa hugfast að tilkynningar til stofnunarinnar séu vegna gruns um aukaverkun og að ekki sé búið að staðfesta orsakasamhengið milli tilvikanna og bólusetningarinnar.

22 tilkynningar um andlát í kjölfar bólusetningar með Pfizer

Af þeim 80 alvarlegu tilkynningum sem borist hafa í kjölfar bólusetningar með bóluefni Pfizer varða 22 þeirra andlát, þar af voru 18 einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma. Voru auk þess 39 tilkynningar sem vörðuðu sjúkrahúsvist, þar af níu vegna lífshættulegs ástands.

Af þeim 66 alvarlegu tilkynningum sem borist hafa í kjölfar bólusetningar með AstraZeneca varða 6 tilkynningar andlát og voru þrír þeirra einstaklinga með staðfestan undirliggjandi sjúkdóm. 50 tilkynningar vörðuðu sjúkrahúsvist, þar af 17 vegna lífshættulegs ástands.

28 alvarlegar tilkynningar hafa borist í kjölfar bólusetningar með bóluefni Moderna. Varðar ein þeirra andlát aldraðs einstaklings með staðfestan undirliggjandi sjúkdóm. 21 tilkynning varðaði sjúkrahúsvist þar af ein vegna lífshættulegs ástands. Ein tilkynning varðar lífshættulegt ástand þar sem ekki kom til sjúkrahúsvistar.

Fæstar alvarlegar tilkynningar hafa borist í kjölfar bólusetningar með bóluefni Janssen en þær voru alls 13, þar af ein sem varðaði andlát eldri einstaklings. Níu vörðuðu sjúkrahúsvist, þar af ein vegna lífshættulegs ástands.

Lyfjastofnun vekur athygli á að flestar tilkynningar um andlát í kjölfar bólusetningar bárust í janúar 2021 þegar elsti hópurinn var bólusettur hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka