Gunnlaugur Sigurjónsson, einn stofnenda Heilsugæslunnar Höfða, segir að skorið hafi verið niður í fjármögnunarkerfi heilsugæslna þrátt fyrir tal um aukið fjármagn til þeirra. Hann flutti erindi um rekstur heilsugæslustöðva á heilbrigðismálafundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka verslunar og þjónustu á Grand Hóteli í gær.
„Við byrjuðum með 3.100 skjólstæðinga við opnun og nú fjórum árum síðar erum við með 22.500 skráða. Við erum orðin stærsta heilsugæslan á landinu,“ sagði Gunnlaugur í erindi sínu og benti á að Heilsugæslan Höfða hefði lent í fyrsta sæti í ánægjukönnun SÍ.
Gunnlaugur sagði að þrátt fyrir aukið fjármagn til heilsugæslna hefði það ekki skilað sér í grunnheilsugæslurnar heldur farið til annarrar línu þjónustu og sérverkefna á borð við geðheilsuteymi.
Aukning fjárframlaga hefur, að sögn Gunnlaugs, heldur ekki haldist í hendur við fjölgun íbúa, verðbólgu og kjarasamningsbundnar launahækkanir. Laun starfsfólks heilsugæslunnar hækkuðu um 3,5-16% á tímabilinu á milli ára.
Launakostnaður er um 80% af rekstrarkostnaði heilsugæslna og því hefur hækkun fjárframlaga upp á 7,1% engan veginn dugað til að mæta þessum aukna kostnaði.
Þar við bætist, að sögn Gunnlaugs, lækkun komugjalda, kostnaður vegna leghálsskimana og fjölgunar íbúa. Þá standi einungis eftir 3,6% sem eigi að standa undir hækkun launa og verðlagsbóta.
Þetta sé því niðurskurður í raun og 500 milljónir vanti inn í fjármögnunarlíkanið eins og staðan er í dag. Fjármögnunarlíkan heilsugæslna gætir heldur ekki jafnræðis að fullu að sögn Gunnlaugs, m.a. vegna þess að einkareknar stöðvar þurfa að kaupa tryggingar, ólíkt þeim opinberu.