Baldur S. Blöndal
Maður á fimmtugsaldri gekk berserksgang með haglabyssu í Dalseli á Egilsstöðum í kvöld sem endaði á því að lögregla skaut hann í kviðinn. Hann hafði verið að skjóta á glugga í götunni rúman hálftíma áður en lögreglan stöðvaði hann.
„Ég var bara í bílskúrnum að vinna þegar ég heyrði smelli eins og í hjólabretti. Ég ætlaði að kíkja út en fann á mér að eitthvað væri á seyði. Síðan þegar ég er hættur að vinna í skúrnum þá sé ég að lögreglan stendur með byssuna á lofti,“ segir Þröstur Jónsson, íbúi í Dalseli.
Gluggarnir í húsi Þrastar voru sundurskotnir þegar hann kom úr bílskúrnum en maðurinn hafði skotið tugum skota í gluggana. Hann sagðist ekki kannast við manninn, sem hafði skotið á fleiri hús í hverfinu.
Þröstur segir að það næsta sem hann hafi heyrt væri lögreglan að biðja manninn að láta vopnið frá sér áður en hún skaut hann í kviðinn og Þröstur sá blóðpoll renna niður götuna.
Maðurinn var með meðvitund þegar sjúkraliðar fluttu hann á brott.
„Allir lögreglubílar á Austurlandi eru í götunni, það er búið að girða allt af með gulum borðum. Þetta er eins og villta vestrið,“ segir Þröstur.
Samkvæmt heimildum mbl.is voru menn frá sérsveit ríkislögreglustjóra sendir á staðinn, bæði frá Akureyri og Reykjavík.
Fréttin hefur verið uppfærð