Mat á umfangi vatnstjóns sem varð í HÍ í janúar er vel á veg komið en þó ekki tilbúið. Hvorki frestur né tímamörk voru sett á afhendingu þess, að sögn Erlu Tryggvadóttur, samskiptastjóra VÍS.
Ekki er útlit fyrir að kennsla, í því húsnæði sem verst fór úr lekanum, hefjist fyrr en á vormisseri 2022 vegna vatnstjóns sem varð í HÍ í janúar þegar 50 ára gömul vatnslögn gaf sig. Tjónið sem varð gæti hljóðað upp á hundruð milljóna króna.
Vonir stóðu til um að matsskýrslur myndu berast í sumar en ekkert bólar á þeim enn, svo viðgerðir dragast á langinn.
Ekki er búið að stefna í málinu en samkvæmt heimildum mbl.is er uppi ágreiningur um hver skuli bæta tjónið – teknar hafa verið skýrslur vegna lekans af fulltrúum Veitna, VÍS, Mannvits, SS Verktaks, TM trygginga og Varðar trygginga. Erla segir að ekki sé búið að taka afstöðu til bótaskyldu eða stefna í málinu:
Fer málið fyrir dómstóla?
„Nei, það er ekki búið að stefna í málinu.“
Eruð þið búin að taka afstöðu til þess hverjum beri að greiða tjónið?
„VÍS hefur ekki tekið afstöðu til bótaskyldu.“