Mikill áhugi fyrir hendi á hraðprófum

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala á hraðprófum við kórónuveirunni er þegar hafin á nokkrum stöðum og fer vel af stað samkvæmt upplýsingum frá seljendum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heimilaði í vikunni sölu á prófunum.

„Miðað við þann fjölda fyrirspurna sem við höfum fengið frá félagsmönnum okkar í mismunandi greinum þá er alveg dagljóst að það er mikill áhugi á að bjóða þessa þjónustu víða í fyrirtækjum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

„Við sjáum það í hendi okkar að þetta muni hjálpa til við að koma á eðlilegu ástandi í samfélaginu. Hraðprófin munu til dæmis gagnast fólki þegar það er að fara í fermingarveislur, brúðkaup eða leikhús, það hlýtur að vera af hinu góða að samfélagið fari að virka á eðlilegan hátt á ný,“ segir hann.

Víða erlendis hafa stjórnvöld útdeilt slíkum hraðprófum eða niðurgreitt þau. Andrés segir aðspurður að hann eigi ekki von á því að svo verði hér. „Ég sé það ekki gerast. Stjórnvöld hafa verið í nánu samstarfi við atvinnulífið og hafa leitt fyrirtækin í gegnum þennan skafl. Ég held að það sé ekki nein stemning fyrir því að ríkið komi að þessum prófum. Aðalatriðið er að það verði nægilega margir sem bjóði upp á þessi próf svo samkeppnin verði eðlileg.“

Tvenns konar próf eru þegar komin á markað, próf sem greind eru úr munnvatnssýni og próf sem tekið er með stroku úr nefi. Securitas selur munnvatnspróf sem skilar niðurstöðum á 15 mínútum og er sagt vera með 97% öryggi. Þau eru seld 20 saman í pakka sem kostar 36.600 eða 1.830 krónur hvert próf. Pakkinn kostaði reyndar 45.750 krónur samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins í gærmorgun en verðið var lækkað eftir fyrirspurn Morgunblaðsins.

„Við einbeitum okkur fyrst og fremst að fyrirtækjum og seljum þetta í magnkaupum. Það hafa margir spurst fyrir um prófin og hugsa þetta kannski sem forvarnargildi, ef fólk er að koma úr ferðalögum eða eitthvað slíkt. Svo eru dæmi um að fólk taki próf á hverjum morgni ef um viðkvæma starfsemi er að ræða,“ segir Fannar Örn Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Securitas. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert