Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja gildistíma reglugerðar um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands til 30. nóvember.
Samhliða er framlengdur til 30. nóvember gildistími reglugerðar um endurgreiðslu kostnaðar fyrir einnota áhöld og efni vegna þjónustu þeirra.
Framlenging reglugerðanna tryggir sjúklingum áframhaldandi greiðsluþátttöku sjúkratrygginga samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, þrátt fyrir að enn hafi ekki tekist samningar milli SÍ og sjálfstætt starfandi sérgreinalækna um þjónustu þeirra, að því er segir í tilkynningu.
„Í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu er sett fram hámark á greiðslur sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er mikilvægur hluti af því að tryggja öllum sem bestan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Sem fyrr segir miðast endurgreiðslur sjúkratrygginga við gjaldskrá SÍ. Dæmi eru um að læknar innheimti greiðslur af sjúklingum sem eru hærri en nemur gjaldskránni og gera þá sjúklingi tvo reikninga, annan samkvæmt gjaldskrá SÍ og hinn vegna þeirra greiðslna sem þeir innheimta af sjúklingi umfram gjaldskrá. Þessi umframkostnaður fæst ekki endurgreiddur og hann reiknast heldur ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklings,” segir í tilkynningunni.