Vilja að hraðprófin verði ókeypis

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir að menningargeirinn sé mjög ánægður með nýjustu tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum. Á laugardag fellur eins metra regla niður á sitjandi viðburðum ásamt því að hlé og veitingasala verður heimiluð.

„Við erum afskaplega glöð og full tilhlökkunar að geta sett allt í gang,“ segir Magnús og nefnir að nýju reglurnar séu gríðarleg breyting þar sem að mun fleiri gestir komist í salina.

„Minni takmarkanir á sýningum eykur líka ánægju og gleði gesta. Þetta er því mjög stór áfangi,“ segir Magnús en nefnir að auðvitað hefði hann helst viljað sjá að allar takmarkanir heyrðu sögunni til.

Orðin öllu vön

Magnús segir að starfsfólk leikhússins sé orðið öllu vant. „Síðustu 18 mánuði höfum við þurft að gera endalaus ný plön og bregðast við ástandinu. Okkur eins og öðrum menningarstofnunum hefur tekist nokkuð vel að halda úti starfssemi og bjóða upp á alls konar menningarviðburði miðað við þær takmarkanir sem hafa verið í gildi að hverju sinni,“ segir hann og nefnir að einnig hafi stafsemin þurft að treysta á og læra ólíkar miðlunaraðferðir.

„Auðvitað erum við búin að bíða í ofvæni eftir að fá að mæta áhorfendum með litlum, og vonandi sem fyrst, með engum takmörkunum.“

Bjartsýni og tilhlökkun fyrir nýju menningarári

Unnið er að því að útfæra 500 manna hólf á viðburðum þar sem skilyrðin eru að allir gestir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst gamalt. Mun það ákvæði að öllum líkindum taka gildi 3. september.

„Það sem við í sviðslistastofnunum og viðburðarhaldarar höfum sagt er að forsenda þess að það geti gengið er að þessi hraðpróf séu mjög aðgengileg, þannig að þau séu nánast hvar sem er, og fólk geti nálgast þetta mjög auðveldlega og hratt. Ásamt því að þau séu gestum að kostnaðarlausu,“ segir Magnús og bætir við að eftir eigi að útfæra þetta nánar.

Magnús segist að lokum fagna nýju reglunum þar sem nýtt leikár er í þann mund að hefjast. „Við förum bjartsýn og full tilhlökkunar inn í nýtt menningarár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert