Aðalatriði að hraðprófin gangi í gegn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

„Við erum alltaf á þeim stað að við teljum rétt að reyna að liðka fyrir eins og hægt er,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is en í dag tilkynnti ráðuneytið enn frekari tilslakanir á samkomutakmörkunum sem taka gildi á morgun. 

„Þetta er, eins og hefur verið margoft, að við erum að fara yfir kosti og galla við málin,“ segir Svandís og bætir við að stöðugt sé verið að meta stöðuna í sóttvarnamálum.

Undirbúa samninga

Í breytingum á sóttvarnaaðgerðum sem kynntar voru í gær kom fram að leyft yrði að halda sitj­andi viðburði með allt að fimm hundruð manns, án fjar­lægðatak­mark­ana, með notk­un hraðprófa.

„Það lá fyrir í gær að við vorum ekki búin að botna hvernig framkvæmd hraðprófanna yrði. Nú er stefnt að því að framkvæmd hraðprófa, eins og segir í reglugerðinni, verði komin á fullt skrið um miðjan september og að prófin verði þá gjaldfrjáls,“ segir Svandís og bætir við að nú sé verið að undirbúa samninga um framkvæmdina. 

„Það er í rauninni það sem stendur fyrir dyrum núna.“ Spurð hvort að hraðprófin verði gerð í samráði við Sjúkratryggingar Íslands segir Svandís ekki geta tjáð sig um tæknilegar útfærslur að svo stöddu. 

„Aðalatriðið að þetta gangi í gegn og verði þannig að aðgengi verði tryggt og að reglugerðin fái að virka ásamt því að almenningur fái að njóta þessara viðburða,“ segir Svandís og bætir við að frekari fregnum á framkvæmd hraðprófanna megi vænta í næstu viku.

Reglugerð heilbrigðisráðuneytisins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert