Ekki víst að flóttafólkið komist til Íslands

Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir ekki liggja ljóst fyrir hvort …
Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir ekki liggja ljóst fyrir hvort það muni takast að flytja flóttafólkið frá Afganistan sem Ísland hyggst taka á móti. AFP

Enginn endanlegur listi liggur fyrir með nöfnum þeirra einstaklinga sem tekið verður á móti frá Afganistan, að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. Segir hann heildarfjölda að miklu leyti ráðast út frá því hvernig gangi að hafa upp á fólkinu sem uppfyllir skilyrðin sem flóttamannanefnd lagði upp með og hvernig takist að flytja það úr landi.

„Þetta er ekki eins og hefðbundið flóttamannaverkefni þar sem ákveðinn fjöldi fólks er sóttur og flogið með hann til landsins. Aðstæður í Afganistan ráða náttúrulega bara mjög miklu um hver endanleg niðurstaða verður.“

Á þriðjudag samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu flóttamannanefndar um að taka á móti allt að 120 manns frá Afganistan. Í tilkynningu ríkisstjórnar kemur fram að stutt verði við þær fjölskyldur sem eru hér á landi og eigi rétt á sameiningu við fjölskyldumeðlimi í Afganistan. Verður þá einnig lögð áhersla á að aðstoða einstaklinga sem eru í bráðahættu vegna starfa sinna, hvort sem það er fyrir Atlantshafsbandalagið eða á sviði jafnréttismála.

Enn vilji að taka á móti allt að 120 manns

Miklar vendingar hafa verið síðasta sólarhring hvað varðar brottflutninga frá Afganistan í kjölfar sprengjuárása á alþjóðaflugvellinum í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í gær. Kanadamenn, Hollendingar og Þjóðverjar tóku ákvörðun um að stöðva brottflutninga alfarið en Frakkar gáfu út að þeir myndu halda áfram út daginn í dag.

Aðspurður segir Sveinn ekki ljóst hvort það takist yfir höfuð að koma flóttafólkinu sem við hyggjumst taka á móti úr landi og eftir því sem klukkustundirnar líða verður það verkefni sífellt flóknara úrlausna. Segir hann jafnframt ekki liggja fyrir hver næstu skref okkar Íslendinga verða í þessum málum en það ráðist einnig að miklu leyti út frá því hvað nýir valdhafar muni taka til bragðs.

„Ísland er náttúrulega í erfiðri stöðu. Við erum ekki með neinn mannskap á vettvangi til að aðstoða fólk úr landi heldur reiðum við okkur á borgaraþjónustu á Norðurlöndunum og samstarf við önnur vinnuríki. En þessi ákvörðun ríkisstjórnar stendur alveg, það liggur fyrir að það er vilji til að taka á móti allt að 120 manns.“

Vita um einn íslenskan ríkisborgara í Kabúl

Vitað um einn íslenskan ríkisborgara í Kabúl sem vinnur hjá undirstofnun Atlantshafsbandalagsins. Er nú unnið að því að flytja manninn frá Afganistan, líkt og öðrum starfsmönnum bandalagsins, en að sögn Sveins getur Utanríkisráðuneytið ekki veitt frekari upplýsingar um mál hans að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert