Lenti í sandbleytu og festist

Rútan er ekki í góðu ásigkomulagi.
Rútan er ekki í góðu ásigkomulagi. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

„Rútan lenti í sandbleytu og það voru búnir að vera töluverðir vatnavextir. Við erum búin að taka allan farangur og flest virðist hafa sloppið,“ segir Ársæll Hauksson, eigandi ferðaskrifstofunnar Southcoast Adventures.

Rúta á vegum fyrirtækisins var að flytja ferðafólk, aðallega Íslendinga, úr Þórsmörk þegar rútan lenti í sandbleytu í Krossá með þeim afleiðingum að hún festist. Öllum þeim þrjátíu sem voru um borð var bjargað úr rútunni laust eftir hádegi.

„Megnið af fólkinu var að koma úr Laugarvegsgöngu. Björgunaraðgerðir gengu ótrúlega vel, það voru komnir bílar frá okkur og fólk úr nágrenninu. Fólki var hjálpað útúr rútunni og beint á bakkann og bílar frá okkur komu og fluttu fólkið heim skömmu síðar,“ segir hann.

Rútan er ekki í góðu ásigkomulagi að sögn Ársæls: „Það er hellingsvinna eftir þar sem það þarf að þurrka allt, því það er vatn innan um allt. En þetta fór eins farsællega og hægt var,“ segir Ársæll að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert