Ríkislögreglustjóri verst allra frétta

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru engin viðbrögð frá okkur,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri innt eftir viðbrögðum við aðgerðum lögreglu á Egilsstöðum í gærkvöldi sem enduðu með því að maður varð skotinn. 

Sigríður svaraði því til að hún þekkti málið ekki nægilega vel og kysi að tjá sig ekki um málið sem er á viðkvæmum stað. 

Hún segir að um sé að ræða alvarlegt atvik og ekki verði unnt að tjá sig á meðan rannsókn stendur. 

Ef okkar fólk hefði haldið á vopninu hefðum við gert það

Aðspurð hvort að von sé á að blaðamannafundur verði haldinn um málið, líkt og gert var þegar maður var skotinn í Hraunbæ af sérsveit árið 2013, sagði Sigríður ekki vita til þess. 

„Það yrði þá héraðssaksóknari og lögreglan á Austurlandi sem myndi halda hann. Ef okkar fólk hefði haldið á vopninu hefðum við gert það. Þetta eru sjálfstæð embætti,“ segir Sigríður Björk. 

Lesa má úr orðum hennar að ekki hafi verið um lögreglumenn í sérsveit að ræða á vettvangi, heldur einungis almennir lögreglumenn frá lögreglunni á Austurlandi. 

Tjáir sig ekki um málið á meðan það er svona viðkvæmt

Er það ekki rétt að lögregluembættið á Austurlandi fellur undir þitt embætti?

„Í rauninni eru öll lögregluembætti sjálfstæð embætti.“

„Ég hef ekki einu sinni flett þessu máli upp sjálfstætt, ég ætla ekki inn í þetta mál á meðan það er svona viðkvæmt. Þetta fellur ekki undir okkur,“ segir Sigríður Björk.

Sigríður Björk vísar annars til héraðssaksóknara og lögreglustjórans á Austurlandi. 

Ítrekað hefur verið reynt að leita frekari upplýsinga hjá embætti héraðssaksóknara, lögreglunni á Egilsstöðum og lögreglustjóra á Austurlandi sem ekki hafa viljað tjá sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert