Skaut að lögreglu og varð þá fyrir skoti

Heimildir mbl.is herma að sérsveitin hafi verið send á staðinn. …
Heimildir mbl.is herma að sérsveitin hafi verið send á staðinn. Myndin er úr safni og tengist fréttinni því ekki með beinum hætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglunni á Austurlandi barst tilkynning um vopnaða manninn í Dalseli á Egilsstöðum þegar hann hafði haft uppi hótanir um að beita skotvopni. Þá fór lögregla á vettvang og var maðurinn þá inni í íbúðarhúsi, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu. 

Tilkynningin til lögreglu um atvikið barst laust eftir klukkan tíu í kvöld.

Skothvellir heyrðust innan úr húsinu og skaut maðurinn í átt að lögreglu. Þá var ekki vitað hvort fleiri væru inni í húsinu.

„Eftir um klukkustund kom viðkomandi vopnaður út úr húsinu, skaut að lögreglu og varð þá fyrir skoti,“ segir í tilkynningunni. 

Í kjölfarið fékk maðurinn aðhlynningu frá lækni og var síðar fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Ekki er vitað um ástand hans. 

„Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla á þessu stigi ekki tjáð sig frekar um málið. Það fer nú til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert