Björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir hádegi í dag eftir að rúta með 30 farþegum festist í Krossá í Langadal. Farþegunum hefur öllum verið bjargað úr rútunni að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
„Þetta leit ekki vel út í fyrstu, enda leiðindaveður,“ segir Davíð en þegar líða tók á gengu björgunarstörf vel.
Allar björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út og nærstaddir björgunarsveitarmenn hjálpuðu til.
Vinna nú björgunarsveitarmenn að því að koma fólkinu til byggða en óvíst er um afdrif rútunnar og hvernig henni verður náð upp úr ánni: „Það er eitthvað sem aðrir munu þurfa að sjá um, en það tókst að koma öllum í land rétt fyrir hálfeitt,“ segir hann.
„Þetta minnir okkur á hvað það er mikilvægt að huga að öryggi þegar veðrið er með þessum hætti,“ segir Davíð að lokum en vatnsfall í ánni var með hærra móti vegna rigninga.