Að semja frið við morðingja

„Það sem er mikilvægast núna er að hjálpa fólkinu sem …
„Það sem er mikilvægast núna er að hjálpa fólkinu sem er lokað inni í Afganistan og á von á að verða drepið í fjöldamorðum. Það þarf að gefa þessu fólki forgang að komast úr landi,“ segja systurnar Erna Huld og Zahra frá Afganistan. mbl.is/Ásdís

Í húsi Vigdísar Finnbogadóttur, Veröld, bíða mín tvær konur sem barist hafa fyrir tilveru sinni alla ævi. Systurnar Erna Huld Ibrahimsdóttir og Zahra Hussaini hafa búið lengi á Íslandi; Erna í ellefu ár og Zahra í fimm. Þegar Erna kom til Íslands fór hún í kynjafræði í háskólanum, vann síðar hjá Rauða krossinum, í Háteigsskóla og skrifaði bók fyrir börn um jafnrétti, ásamt vinkonu sinni Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, sem heitir Þú, ég og við öll. Seinna vann hún í þrjú ár hjá Hjallastefnunni og rekur í dag túlkaþjónustu þar sem unnið er við þýðingar og túlkun.

Zahra vinnur á leikskóla og er að hefja meistaranám í leikskólafræðum. Tveir bræður þeirra búa hér einnig og eru við nám.

Systurnar tala reiprennandi íslensku, hafa menntað sig og eru í góðum störfum. Hér eiga þær gott líf en það sama verður ekki sagt um landa þeirra í Afganistan. Við setjumst niður á kaffistofunni í kjallaranum og ræðum um Afganistan þá og nú, líf þeirra og baráttu og ástandið í heimalandi þeirra nú eftir valdatöku talíbana. Systurnar segja framtíð Afgana í algerri óvissu en þær óttast hið versta.

Átta manns á tólf fermetrum

Erna Huld kom hingað árið 2010 til að fara á námskeið í kynjafræði í Háskóla Íslands sem var á vegum Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og hefur verið hér síðan. Hún fæddist 1983 þótt það standi í þjóðskrá að hún sé fædd 1982 en hún útskýrir að í Afganistan sé nánast enginn með skráð rétt fæðingarár. Fyrir nokkrum árum tók hún upp íslenska nafnið Erna Huld en hét áður Fatima. Zahra er fimm árum yngri en systir hennar.

 „Ég fæddist í Íran því foreldrar mínir fluttu þangað 1973 en þau eru Afganar. Við fluttum aftur til Afganistans árið 1996, strax eftir að talíbanar tóku yfir landið. Ástæðan var sú að við máttum ekki lengur ganga í skóla í Íran og þess vegna ákvað pabbi að flytja til baka, en upphaflega fluttu foreldrar mínir til Írans til þess að börn þeirra fengju menntun,“ segir Erna og segir þau hafa dvalið í fjóra daga í flóttamannabúðum áður en þau komust til Bamiyan, héraðs þar sem fjölskyldan átti ættingja og lítið hús. Hún segir þau ekki hafa áttað sig á yfirvofandi yfirtöku talíbananna, enda afar stopull fréttaflutningur og lélegt netsamband árið 1996.

Ferðalagið úr flóttamannabúðunum heim í héraðið tók hálfan mánuð.

„En svo komu talíbanar daginn eftir og tóku yfir. Þetta var mikil óheppni og ég man hvað mamma var hrædd. Við sátum aftan á pallbíl á leiðinni og ég man að mamma var að skýla mér af því ég var stelpa, tólf ára,“ segir hún og segir að þegar þau komu til Bamiyan hafi ekki reynst þar lengur neinn skóli fyrir börnin.

„Við bjuggum í eins herbergis litlu húsi, sem mamma og pabbi höfðu átt allan tímann sem þau voru í Íran. Ég held það hafi verið tólf fermetrar og við vorum átta saman þar í fjögur ár. Við sváfum öll á gólfinu.“

Mamma var með plan

„Pabbi var bóndi og ræktaði hveiti, sem gekk illa, því það var ekki nóg vatn. Aðalmatur okkar og allra þarna var brauð og kartöflur. Við elduðum kannski einu sinni í mánuði. Þannig var lífið hjá fólkinu. Við vorum mjög fátæk því héraðið var undir stjórn talíbana og allt var mjög dýrt, en talíbanar náðu yfirráðum yfir héraðinu um tveimur árum eftir að við fluttum þangað,“ segir Erna, sem segir að styrjöld hafi ríkt í sveitunum í kring og talíbanar hafi svo komið í bæinn þar sem þau bjuggu.

„Svo komu talíbanar og sögðu okkur að koma til baka, þeir myndu ekki drepa okkur. Mamma var samt mjög hrædd því við heyrðum margar sögur um að talíbanar tækju ungar stúlkur og seldu. Mamma sendi seinna systur mína og bróður til Pakistans og við fórum svo þangað ári seinna því það var stríð og talíbanar komu og fóru sífellt á víxl,“ segir Zahra og segjast þær systur hafa þekkt fólk sem talíbanar tóku og sást aldrei meir.

Þær segja að allir hafi hræðst talíbanana.

„Ég man að mamma var með plan um hvernig við ættum að deyja frekar en vera tekin af talíbönum,“ segir hún og útskýrir að sögur hafi verið um að stúlkur hafi frekar hent sér í brunna en að lenda í höndum talíbana.

„Það er betra að deyja en láta taka sig og selja.“

Hljóp á milli sprengja

Erna kom hingað árið 2010 beint frá Afganistan en hafði áður unnið við útvarp í Afganistan og meðal annars gert þætti um barnahjónabönd og jafnrétti kynjanna. Hún stóð einnig að stofnun meistaranáms í kynjafræði við háskólann í Kabúl.

„Ég hafði lesið mikið um kvenréttindi en á árunum fyrir 2005 var ekki svo hættulegt í Afganistan en versnaði eftir það. Landinu var skipt upp og hermenn frá ýmsum löndum Nató sáu um mismunandi svæði,“ segir Erna og segir það hafa verið bæði gott og slæmt að fá herlið Nató inn í landið.

„Það breyttist auðvitað margt í tuttugu ár en þetta var líka innrás. Það var mikið verið að sprengja og stríð var alltaf í gangi,“ segir Erna og þær útskýra að fjölskyldan hafi svo búið í Mazar og Kabúl þar sem mörg systkinanna hafi verið í háskólanámi.

„Ég man eftir einum degi þegar yngsta systir mín var nýfarin í skólann að þá sprakk sprengja úti á götu. Mamma kom grátandi til mín en búið var að loka þessari leið frá heimilinu til skólans. Svo kom systir mín heim og sagðist hafa hlaupið á milli sprengja þar til kona í leigubíl hefði náð að kippa henni upp í bílinn. Á hverjum degi bjó maður við það að fara af heimilinu og vita ekki hvort maður kæmi til baka. Það voru alltaf sprengjur og við lifðum í ótta,“ segir Zahra og segir að jafnvel skólar og fæðingardeildir spítala hafi verið sprengd í loft upp.
Erna segist nú hafa miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni í Afganistan.

„Þau eru öll í hættu.“

Bandaríkin gáfu talibönum vald

Nýlegir sögulegir atburðir í Afganistan hafa ekki farið fram hjá neinum, en Bandaríkjamenn og Nató hafa dregið herlið sín að mestu úr landinu. Talíbanar voru fljótir að ná völdum og tók það mun skemmri tíma en fólk átti von á.

Nú var afganski herinn rúmlega þrefalt stærri en her talibana og búið að þjálfa hann lengi. Hvað gerðist?

„Bandaríkjamenn gerðu þetta rangt. Þeir opnuðu fangelsi og slepptu út fimm þúsund talíbönum í tíð Trumps. Þeir voru í samningaviðræðum við talíbana en voru ekki að hugsa um ríkisstjórn Afganistans. Það má segja að Bandaríkjamenn hafi gefið talíbönum meiri völd og afganski herinn missti löngunina til að berjast. Stjórnmálamenn studdu heldur ekki hermennina og sögðu þeim að berjast ekki því þeir vildu semja frið við talíbana. Þannig gekk þetta fram og til baka. Bandaríkjamenn vildu semja frið við morðingja. Þetta var alrangt, að semja frið við talíbana. Þeir drápu fólk daglega, áður og í stríðinu og núna eru þeir enn að drepa. Og Bandaríkjamenn vildu semja frið við þessa morðingja Afgana,“ segir Zahra.
„Það er einnig annað sem þarf að hafa í huga þegar maður talar um 300.000 hermenn á móti 75.000 talíbönum. Afganska þjóðin er svo fátæk og þessir hermenn höfðu enga vinnu og fóru því í herinn. Þeir fóru ekki í herinn til að verja landið sitt. Í fyrsta lagi tel ég að við séum ekki ein þjóð í Afganistan. Við höfum ekki sjálfsmynd sem ein þjóð, sem Afganistan. Við erum svo mörg þjóðarbrot og það er mikilvægara að tilheyra sínu þjóðarbroti en þjóðinni,“ segir Erna.
„Hitt er það að Afganar vildu ekki endilega að Bandaríkjamenn kæmu upp her, þeir höfðu bara ekkert val. Þannig fóru ungir menn í herinn bara til að lifa af. En svo vilja þeir ekki deyja í stríði sem hefur engan tilgang. Og hverjir eru talíbanar? Flestir þeirra eru Afganar,“ segir Erna.
„Við getum kennt nágrönnum okkar um, eins og Pakistan og Íran, en þessi lönd græða á þessum átökum því vatnið fer nú til Írans. Vatn er eitt helsta deilumál á milli Afganistans og Írans,“ segir Erna.
„Þannig er það nágrönnum okkar til hagsbóta að það sé stríð í Afganistan,“ segir Zahra.

Konur hræddar við að fara út

Systurnar reyna að vera í sambandi við fólkið sitt í Afganistan eins og hægt er, en ekki er alls staðar gott netsamband.

Hvernig er ástandið hjá fólkinu sem þið heyrið í?

„Konur eru hræddar við að fara út. Þær hafa stundum farið út nokkrar saman til að sjá hvort talíbanar leyfi þeim að fara til vinnu. Í fréttunum heyrist að þær fái að vinna en í raun er það ekki svo. Þær eru sendar aftur heim. Bankar eru allir lokaðir og því ekki hægt að taka út pening. Ég get ekki sent fjölskyldunni pening. Verð á mat hefur hækkað mikið og búðir eru flestar lokaðar. Fólk fer ekki í vinnuna,“ segir Zahra.

„Frændi okkar var handtekinn og barinn og skorið í handlegg hans, en pabbi hans vann fyrir ríkið og bróðir hans var í hernum. Talíbanar eru þarna að fara hús úr húsi. Fólk er að reyna að brenna öll gögn,“ segir Erna og segist hafa miklar áhyggjur af þessum frænda sínum.
Zahra segir að ýmis tæki sem áður voru í eigu Bandaríkjamanna séu nú fallin í hendur talíbönum.
„Það er alls kyns tölvubúnaður og hugbúnaður sem er nú í þeirra höndum; persónuupplýsingar um fólk. Talíbanar leita að aktívistum, blaðamönnum og konum sem voru til dæmis dansarar eða að vinna að jafnrétti,“ segir Zahra.

„Þeir eru búnir að drepa ættingja þýsks blaðamanns. Þeir eru líka að taka ungar stúlkur til að gifta þær talíbönum, allt niður í tólf ára aldur. Líka konur látinna hermanna,“ segir Zahra.

Systurnar Erna Huld og Zahra frá Afganistan hafa miklar áhyggjur …
Systurnar Erna Huld og Zahra frá Afganistan hafa miklar áhyggjur af framtíð afgönsku þjóðarinnar. Þær óttast hið versta. mbl.is/Ásdís

Sumir í meiri hættu en aðrir

Nú hafa talíbanar lofað ýmsu til dæmis varðandi menntun kvenna, er eitthvað að marka þessi loforð?

„Þeir segja eitt og svo annað. Sumir segja að stelpur megi bara mennta sig til tólf þrettán ára aldurs. Maður skilur ekki þennan hugsunarhátt,“ segir Zahra.

„Þessir talíbanar vilja að við lifum eins og við værum á sjöundu öld. Þeir vilja að við búum undir sjaríalögum og að konur geti notið réttinda undir sjaríalögum, en þeir segja ekki hvaða sjaríalög nákvæmlega þeir eiga við. Það er margs konar túlkun á þessu,“ segir Erna og að mikilvægt sé að ekki sé farið í annað stríð.

„Ég veit ekki hvað talíbanar gera. Þetta eru ekki sömu talíbanar og voru fyrir tuttugu árum og Afganistan er ekki sama land og fyrir tuttugu árum. Fólk er menntaðra og með fleiri tækifæri en þá. Ef talibanar vilja fá viðurkenningu frá alþjóðasamfélaginu hafa þeir ekkert annað val en að fallast á kröfur þess. Þeir geta ekki haft mannréttindi af helmingi þjóðarinnar; konum. Þeir geta ekki sniðgengið minnihlutahópa og þeir geta ekki svipt fólkið frelsi. En ég býst frekar við að þetta verði það sem þeir munu gera og þá verður stríð,“ segir Erna.

Hvað viltu sjá alþjóðasamfélagið gera núna til að hjálpa Afgönum?

„Það sem er mikilvægast núna er að hjálpa fólkinu sem er lokað inni í Afganistan og á von á að verða drepið í fjöldamorðum. Það þarf að gefa þessu fólki forgang að komast úr landi,“ segir Erna og segir aldrei verði hægt að hjálpa öllum.

„Sumir eru í meiri hættu en aðrir. Eins og konur og minnihlutahópar,“ segir hún og nefnir að hinsegin fólk sé nú réttdræpt undir stjórn talíbana.

„Ég vona að Ísland taki á móti einhverjum,“ segja þær systur og segja framtíð Afgana ekki bjarta.

„Ég vona að það verði ekki annað stríð en það er mjög líklegt.“

Ítarlegt viðtal er við systurnar Ernu Huld og Zahra í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert