Séra Þorgeir Arason, sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls, segir bæjarfélagið sannarlega slegið eftir að lögregla skaut og særði vopnaðan mann í íbúðahverfi á Egilsstöðum í fyrrakvöld. Mikilvægt sé að fólk hugi að orðum sínum þegar atvik af þessu tagi séu til umræðu.
„Gróa á Leiti er stundum farin af stað í miklu tilgangsleysi og getur valdið miklu tjóni áður en við er litið,“ segir Þorgeir en margir leituðu til hans eftir atburði kvöldsins.
Hann segist vona að íbúar í grenndinni hugi vel að líðan og tilfinningum sínum á næstu dögum og verði ófeimnir við að leita sér aðstoðar telji þeir þörf á. „Sem betur fer hefur orðið heilmikil vakning í samfélaginu gagnvart því að það sé engin skömm að því að leita sér hjálpar nema síður sé.
Að leita sér aðstoðar við sinni vanlíðan í kjölfar áfalla og í ýmsum erfiðleikum lífsins,“ segir Þorgeir og bætir við að áfallið sé sérstaklega mikið í bæjarfélagi af þessari stærð:
„Hér er um að ræða úthverfi í ákaflega friðsælu samfélagi. Bæjarfélag sem er undir venjulegum kringumstæðum ákaflega friðsælt og öruggt.“ Þorgeir segir það mikilvægt að minna á að halda stillingu þegar málin eru rædd við börn.
„Þá þarf að leggja áherslu á það að þrátt fyrir allt bendi allt til þess að öryggið sé í fyrirrúmi hérna,“ segir Þorgeir sem hrósar viðbragði lögreglu. „Hún náttúrulega sinnir sínu hlutverki alveg gríðarlega vel, sem er að verja borgarana.“