Stjórn KSÍ á maraþonfundi

Guðni Bergsson, formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri. Ljósmynd/KSÍ

Stjórn KSÍ fundar enn um ofbeldismál innan sambandsins. Fundarhöld hafa staðið yfir síðan klukkan tólf á hádegi. mbl.is náði tali af Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra sambandsins á meðan hlé var gert á fundinum laust fyrir klukkan hálffjögur síðdegis.

Í sjöfréttum Ríkissjónvarpsins í gær steig Þór­hildur Gyða Arn­ars­dótt­ir og greindi frá því að hún hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu landsliðsmanns á skemmtistað árið 2017.

Faðir Þórhildar tilkynnti málið til KSÍ hálfu ári síðar sem bauð henni þá á fund þar sem henni bauðst að skrifa undir þagnarskyldusamning gegn miskabótum. KSÍ hafnar því að lögmaðurinn hafi verið á vegum sambandsins.

Deginum áður hafði Guðni Bergsson formaður KSÍ fullyrt í viðtalsþættinum Kastljósi að sambandinu hefði aldrei borist formleg kvörtun vegna kynferðisofbeldis. Guðni sagði í kvöldfréttum deginum eftir að hann hefði misminnt.

Klara sagði þetta sannarlega vera umræðuefni fundarins sem hefur staðið yfir í dag en vildi ekki tjá sig nánar um málið eða framvindu hans: „Það stendur ennþá yfir fundur og á meðan svo er mun ég ekki tjá mig efnislega um það mál,“ sagði hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert