Vill að íþróttahreyfingin taki til hjá sér

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/​Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, dáist að hugrekki þeirra brotaþola sem stíga fram og segja sögu sína af kynferðisofbeldi og henni finnst frábært að á Íslandi, sem og víða um heim, hafi orðið bylting í umræðu um kynferðisofbeldi. 

Hún segir að það óski sér það enginn að vera andlit brotaþola og að enginn vilji að nafn sitt sé tengt við kynferðisofbeldi og því dáist hún að því þegar fólk þorir að stíga fram og segja frá brotum sem það hefur orðið fyrir. 

„Það er mikill vilji til þöggunar þegar svona mál koma upp á yfirborðið,“ segir Helga Vala við mbl.is um viðbrögð KSÍ við því máli sem nú er komið upp og tengist þagnarskyldusamningi, sem sambandið bauð Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, eftir að hún steig fram og lýsti ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu. 

„Mig grunar að KSÍ sé ekki eina sérsambandið sem er þessa dagana að fást við mál af þessu tagi,“ bætir hún við.

Umræða um þöggun KSÍ hefur verið mikið til umræðu síðan …
Umræða um þöggun KSÍ hefur verið mikið til umræðu síðan Þórhildur Gyða Arnarsdóttir sagði sögu sína af olfbeldi sem hún varð fyrir af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu. mbl.is/Árni Sæberg

Vill að íþróttahreyfingin taki til hjá sér óumbeðin

Helga Vala segist kalla eftir því að stjórn KSÍ, sem og forsvarsmenn annarra sérsambanda innan ÍSÍ, líti í eigin barm og skoði hvort þöggunar um kynferðisbrotamál hafi orðið vart af þeirra hálfu. Þá vill hún að þess háttar aðilar skoði hvort til séu brotaþolar sem þurfi nú að boða á fundi og biðjast afsökunar vegna einhverra misgjörða eða þöggunar.

„Ég kalla bara eftir því núna að íþróttahreyfingin og aðrar sambærilegar hreyfingar komi að fyrra bragði og taki til hjá sér, skoði ofan í skúffurnar og athugi hvað sé að finna þar – er eitthvað sem við þurfum að hreinsa til? Það held ég að þurfi að gerast í kjölfarið af þessu,“ segir hún. 

Stendur á stjórnmálamönnum að grípa byltinguna

Aðspurð segir Helga Vala að það sé sannarlega á forræði kjörinna fulltrúa að grípa þá byltingu sem hún segir að hafi orðið í umræðu um kynferðisofbeldi og færa í raunverulegar aðgerðir í þágu brotaþola. Hún segir þá ekki njóta neinnar verndar hér á landi. 

„Það er okkar að senda þau skilaboð til forsvarsmanna fyrirtækja, opinberra stofnana og allra annarra sviða samfélagsins að þau verði að grípa umræðuna á lofti og ganga úr skugga um að vel sé hlúð að brotaþolum, þöggun sé afstýrt og ofbeldi kveðið niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert