Stjórn KSÍ fundar áfram í dag vegna ofbeldismáls frá 2017 sem greint var frá í kvöldfréttum RÚV á föstudag. Stjórnin fundaði frá hádegi og fram á kvöld í gær en fundarhöld hófust aftur klukkan 10 í dag.
Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um ofbeldismál innan knattspyrnusambandsins. Sú umræða hófst þegar lögreglan í Manchester greindi frá því að hún hefði mál til rannsóknar sem varðaði kvæntan, 31 árs gamlan landsliðsmann í borginni sem var grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi. Umræddur landsliðsmaður reyndist vera Gylfi Þór Sigurðsson en sú rannsókn stendur enn yfir.
Síðar ritaði Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og formaður jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, grein þar sem hún gagnrýndi stjórn KSÍ og stefnu sambandsins í jafnréttismálum. Hún sagði sambandið hvorki hafa verið afgerandi né náð árangri á sviðinu.
Hún vísaði síðan til frásagnar ungrar konu af hópnauðgun sem hún hafði orðið fyrir árið 2010. Af frásögninni mátti ráða að um landsliðsmenn væri að ræða.
„Það hafði þó ekki meiri áhrif á gerendurna (landsliðsmennina) en svo að þeir gerðu grín að nauðguninni daginn eftir. Forherðingin algjör. Í frásögninni kemur fram hvaða afleiðingar þessi unga kona hefur þurft að burðast með. Lýsingin er þyngri en tárum taki. Þolandanum var eindregið ráðlagt að kæra ekki, við ofurefli væri að etja.“
Hanna vísar einnig til fleiri frásagna af ofbeldi innan landsliðsins, af kynferðislegum toga en einnig heimilisofbeldis. Hún sagði í pistlinum að KSÍ væru tveir vegir færir:
„Annars vegar að halda áfram að senda þau skýru skilaboð til stráka og karla að þeir geti beitt konur miskunnarlausu ofbeldi, án þess að það hafi nokkur áhrif á velgengni þeirra og því síður að þeir þurfi að axla ábyrgð á gerðum sínum. Skilaboðin til stúlkna og kvenna frá KSÍ eru að þær þurfi að sætta sig við ofbeldið af hálfu karla og þegja yfir því, annars verði þær sakaðar um lygi.
Hin leiðin fyrir KSÍ er að verða hluti af lausninni, að rjúfa vítahring ofbeldis, þöggunar og kvenfyrirlitningar. Taka skýra afstöðu með þolendum, jafnrétti og réttlætinu.“
Þessi grein hratt af stað mikilli umræðu í samfélaginu sem náði hámarki á miðvikudag þegar nýr landsliðshópur var kynntur en þar voru nokkrir fastir póstar ekki valdir. Þar á meðal Gylfi Þór Sigurðsson sem sætir enn rannsókn í Manchester en landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson sagðist á fundinum ekki hafa talað við Gylfa.
Guðni Bergsson var síðan gestur Kastljóss degi síðar þar sem hann var spurður hvort mál sem vörðuðu kynferðislegt eða kynbundið ofbeldi hefðu komið á borð sambandsins:
„Ekki með formlegum þætti, en við höfum verið meðvituð núna nýverið um umræðu á samfélagsmiðlum, en við höfum ekki fengið kvörtun eða ábendingu um að einhver tiltekinn hafi gerst sekur um kynferðisbrot.“
Degi síðar steig Þórhildur Gyða Arnarsdóttir fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins og greindi frá broti sem hún varð fyrir árið 2017 af hálfu landsliðsmanns. Hún lýsti brotinu í viðtalinu:
„Hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund.“
Þórhildur segist hafa verið með áverka í vikur en hún kærði málið til lögreglu. Hálfu ári eftir atvikið ætlaði faðir Þórhildar að fara á vináttulandsleik. Þegar hann áttaði sig á að umræddur knattspyrnumaður væri í landsliðshópnum sendi hann stjórnarmeðlimum KSÍ tölvupóst og greindi frá kærunni.
Faðir Þórhildar fékk þá svar frá Guðna Bergssyni sem sagðist taka málið alvarlega. Stuttu síðar fékk Þórhildur símtal frá lögmanni sem bauð henni að koma á fund hjá KSÍ þar sem henni yrði boðinn þagnarskyldusamningur gegn greiðslu miskabóta. Hún hafnaði því boði en KSÍ neitar því sömuleiðis að sá lögmaður hafi verið á þeirra vegum.
Stuttu síðar setti annar lögmaður sig í samband við hana og bauð henni á fund landsliðsmannsins sem greiddi henni miskabætur. Þórhildur segist í viðtalinu ekki stíga fram vegna landsliðsmannsins heldur vegna framkomu Guðna Bergssonar í Kastljósi.
Inntur eftir viðbrögðum við þessu máli og orðum sínum í Kastljósi deginum áður sagði Guðni Bergsson að hann hefði misminnt. Hann hafi haldið að mál Þórhildar hefði ekki verið af kynferðislegum toga og sagði ummæli sín hafa verið mistök.
Frá því að þetta viðtal við Guðna var birt hafa margir kallað eftir því að hann segi af sér og axli þannig ábyrgð á þessu. Meðal þeirra eru aðgerðarhópurinn Öfgar og forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn.
Stjórn KSÍ fundaði frá hádegi og fram á kvöld í gær. Enginn í stjórninni hefur kosið að tjá sig um framvindu fundarins eða hvenær ætlað er að honum ljúki.