Guðni Bergsson er hættur sem formaður KSÍ samkvæmt heimildum mbl.is. Fréttin verður uppfærð.
Fundarhöld hafa staðið yfir alla helgina hjá KSÍ vegna ofbeldismála innan sambandsins. Allir starfsmenn KSÍ voru boðaðir á fund klukkan 16 í dag.
KSÍ staðfestir á Twitter-síðu sinni að Guðni hafi ákveðið að hætta sem formaður og að frekari upplýsinga væri að vænta frá KSÍ síðar í dag.
Tilkynning: Guðni Bergsson hefur ákveðið að hætta sem formaður KSÍ. Frekari upplýsinga er að vænta frá KSÍ síðar í dag.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) August 29, 2021
Stjórn KSÍ hóf fundarhöldin eftir að þolandi steig fram og lýsti því að landsliðsmaður hefði beitt hana ofbeldi á skemmtistað árið 2017. Guðni kom fram í Kastljósi deginum áður og lýsti því að engin formleg kvörtun hefði komið á hans borð.
KSÍ hefur verið sakað um þöggun og meðvirkni með gerendum innan sambandsins en síðustu daga hefur komið fram hávært ákall um gagngerar breytingar á stjórn KSÍ.
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði pistil þann 13. ágúst síðastliðinn sem hratt af stað umræðu um málefnið en í viðtali á Bylgjunni í dag dró hún hæfi Guðna sem formanns í efa:
„Er Guðni Bergsson starfi sínu vaxinn ef hann sér ekki hvað er að gerast í kringum sig? Auðvitað er það þeirra starf að vita og auðvitað vita þau.“