Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ segir ljóst að sambandið hafi ekki fylgt eftir þeirri þróun sem orðið hefur í samfélaginu síðustu ár.
Guðni Bergsson hefur sagt af sér sem formaður KSÍ en Klara vill ekki tjá sig um hvort sú ákvörðun hafi verið að hans frumkvæði. Hún vill heldur ekki tjá sig um hvert hennar viðhorf er til uppsagnarinnar.
Heyrst hafa gagnrýnisraddir um að stjórn KSÍ ætli sér að sitja fram í febrúar og láta það nægja að formaðurinn víki. Klara segir að það sé ekki við hæfi að hún sem starfsmaður sambandsins lýsi yfir skoðun sinni á þeirri ákvörðun stjórnarinnar.
Klara kveðst þreytt eftir fundarhöld helgarinnar en andrúmsloftið hefur verið nokkuð þungt í fundarherbergjum KSÍ. „Við erum miður okkar og getum ekki annað gert en að biðjast afsökunar og bæta okkur.“
Aðspurð hvort þetta muni hafa áhrif á leikmannahóp A-landsliðs karla segir Klara að það þurfi þjálfarar að ákveða. „Ég efast ekki um að þetta sé þjálfurum og leikmönnum landsliðsins erfitt líka, enda viðkvæm og erfið mál,“ segir hún.
Skipaður verður starfshópur til þess að bæta verkferla með utanaðkomandi aðstoð.
„Fólk hefur beðið skaða af okkar gjörðum og athafnaleysi, við erum öll meðvituð um okkar ábyrgð í þessu efni,“ bætir Klara við og bendir á að það hafi verið einhverjir verkferlar til staðar fyrir en það sé ljóst að þeir hafi ekki verið nægilega víðtækir.