Smit í minnst tíu skólum höfuðborgarsvæðisins

Skólastarf grunnskólanna hófst á mánudag og nú, viku seinna, eru …
Skólastarf grunnskólanna hófst á mánudag og nú, viku seinna, eru tugir nemenda komnir í sóttkví. mbl.is/Hari

Skóla- og frístundasviði í Reykjavík hefur verið tilkynnt um smit í sjö skólum í Reykjavík þessa helgina og vitað er um þrjá til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu. 

Einnig hefur mbl.is borist ábending um smit í Hlíðaskóla, en ekki fengið það staðfest.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, staðfestir að smit hafi komið upp í Vogaskóla, Seljaskóla, Laugalækjarskóla, Landakotsskóla, Hamraskóla, Fellaskóla og Álftamýrarskóla.

Tíu nemendur eru komnir í sóttkví vegna smitsins í Víðistaðaskóla í Hafnafirði, að sögn Hrannar Bergþórsdóttur skólastjóra. 

Þá hafa verið staðfest smit í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ.

Færri í sóttkví út af nýju reglunum

Skólastarf grunnskólanna hófst á mánudag og nú, viku seinna, eru tugir nemenda komnir í sóttkví. „Ég var orðinn vongóður á föstudag því þá hafði ekki borist tilkynning um neitt smit í vikunni, en svo kom þetta,“ segir Helgi. 

Helgi Grímsson.
Helgi Grímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki liggur fyrir samanlagður fjöldi þeirra sem þurfa að sæta sóttkví vegna smitanna en Helgi telur að nýjar reglur um sóttkví í skólum muni hjálpa til við að afmarka hópinn betur en áður hefur verið gert, svo færri þurfi að fara í sóttkví.

„Miðað við hvað veiran er útbreidd í samfélaginu þá er eðlilegt að smit berist inn í skóla, okkar áhersla er að smitin breiðist svo ekki út innan skólanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert