Tveir leikmenn út úr landsliðshópnum

Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. mbl.is/Hari

Tvær breytingar verða gerðar á hópi A-landsliðs karla í knattspyrnu fyrir næsta leik. Einn leikmaður hefur dregið sig út úr hópnum og stjórn KSÍ hefur óskað eftir því að hinn leikmaðurinn spili ekki í leiknum.

Þetta staðfestir Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, við mbl.is en Vísir greindi fyrst frá málinu.

Þessi tíðindi tengjast umræðunni sem hefur verið uppi að undanförnu um þöggun vegna ofbeldis innan raða KSÍ.

Gísli segir að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sé nýkominn til landsins og að hann sé að vinna í málunum.

Gísli segir helgina hafa verið afar erfiða en KSÍ hefur fundað stíft vegna næstu skrefa. Fyrr í dag sagði Guðni Bergsson upp sem formaður KSÍ.

Stjórn sambandsins ákvað að sitja áfram þangað til í febrúar. Aðspurður segir hann að mikil umræða hafi verið um það. „Það voru allir sem íhuguðu mjög vel stöðu sína. Varðandi það að halda starfsemi sambandsins gangandi var niðurstaðan að halda áfram til næsta þings,“ segir Gísli.

Undir yfirlýsingu stjórnar KSÍ í dag að loknum fundarhöldunum skrifa fjórtán karlar en einungis tvær konur. Er ekki þörf á að fjölga konum í stjórninni?

„Það er ekki spurning. Miðað við þau markmið að jafna kynjahlutföll í stjórnum er það mjög eðlilegt en þá verða konur að stíga fram og bjóða sig fram til verka. Það er ástæða til að hvetja þær til þess,“ svarar Gísli.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert