Maðurinn sem hóf skothríð á Egilsstöðum síðastliðið fimmtudagskvöld hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu héraðssaksóknara um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og til að verja aðra fyrir árásum sakbornings.
Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að rannsókn málsins lúti meðal annars að tilraun til manndráps, valdstjórnarbrotum, líkamsárás, hótunum og almannahættubrotum auk brota gegn vopnalögum og barnaverndarlagabrotum.
Sakborningur er sagður á batavegi og hefur verið fluttur á almenna deild og sætir gæslu á sjúkrahúsi.
Rannsókn málsins er sögð miða vel en embætti héraðssaksóknara hefur jafnframt til rannsóknar þann þátt málsins sem varðar beitingu lögreglu á skotvopni gegn sakborningi.