Gæsluvarðhald yfir hjúkrunarfræðingi sem sætir rannsókn vegna andláts konu á Landspítalanum rennur út á morgun. Gæsluvarðhaldsins var krafist á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann segir málið í rannsókn og vildi því ekki tjá sig um það efnislega að svo stöddu.
Tilkynning barst frá Landspítalanum í gærmorgun um að lögregla hefði til rannsóknar andlát konu á sextugsaldri sem lést á spítalanum fyrr í mánuðinum. Spítalinn tilkynnti málið sjálfur til lögreglu.
Síðar hefur komið fram að sú grunaða, hjúkrunarfræðingur á sextugsaldri, hafi unnið á geðdeild og hin látna verið vistmaður á deildinni.