Icelandair hættir fluginu til Eyja

Icelandair hóf Eyjaflug í desember á sl. ári. Ekki reyndist …
Icelandair hóf Eyjaflug í desember á sl. ári. Ekki reyndist grundvölldur til að halda fluginu áfram. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Íris Róbertsdóttir, hefur óskað eftir fundi með samgönguráðherra og stjórnendum Vegagerðarinnar vegna þeirrar ákvörðunar Icelandair að hætta áætlunarflugi til og frá Vestmannaeyjum eftir nk. þriðjudag. „Við teljum mikilvægt að í samgöngum til og frá Eyjum séu bæði ferja og flug. Því er mjög miður að forsvarsmenn Icelandair hafi ákveðið að hætta flugi hingað. Ég tel það vera á ábyrgð ríkisins að tryggja eðlilega og góðar samgöngur milli lands og Eyja,“ segir Íris bæjarstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Bjuggust við að heimamenn nýttu sér þjónustuna meira

Icelandair flýgur skv. áætlun til Vestmannaeyja í dag og á morgun, en þá verður punktur settur á síðasta degi ágústmánaðar. Félagið hóf flug til Eyja rétt fyrir jól í fyrra. Kom þá í stað Ernis sem hafði flogið á þessari leið um nokkurn tíma en taldi ekki grundvöll fyrir áframhaldi. Sama er uppi á teningnum nú.

Þegar best lét í sumar voru Eyjaferðir Icelandair átta í viku hverri og en hafa verið fimm nú í ágúst. „Við sáum fram á að eftirspurn stæði ekki undir flugi til Vestmannaeyja í september. Ákváðum því að ljúka sumaráætlun okkar mánuði fyrr en áformað var, í lok ágúst í stað september. Flugið gekk ágætlega í sumar en við höfðum þó væntingar um meiri eftirspurn og teljum að margir samverkandi þættir hafi haft þar áhrif. Við bjuggumst til dæmis við að heimamenn í Eyjum nýttu sér þjónustuna í meira mæli í sumar en raunin varð,“ sagði Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Morgunblaðið í gærdag.

Vegna áhrifa Covid tók ferðaþjónustan seinna við sér í sumar en vænst var sem hafði áhrif á Eyjaflugið, segir Ásdís Ýr og bætir við: „Þá settu breytilegar ferðatakmarkanir og samkomureglur strik í reikninginn. Vegna veðurblíðu fyrir norðan og austan, lá straumur innlendra farþega að miklu leyti þangað en ekki til Eyja. Við höfum ekki tekið ákvörðun um Eyjaflug næsta sumar. Almennt til lengri tíma litið sjáum við þó tækifæri í Vestmannaeyjum sem áfangastað, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka