Mikil firring í fótboltaheiminum

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Íþróttahreyfingin er samfélag og þar finnst ofbeldi eins og í öllum öðrum samfélögum.“

Þetta segir Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, inntur eftir viðbrögðum við þeirri miklu gagnrýni sem KSÍ hefur sætt undanfarna daga fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.

„Það sem er áhugavert núna, hvað þetta mál varðar, er að þarna eru nokkrir leikmenn í sama liði sem eru sakaðir um ofbeldisbrot á ákveðnu tímabili, sem bendir til þess að þetta sé ekki bara einstaklingsvandamál þeirra heldur er þetta líka menningarvandamál,“ segir Viðar.

Afreksheimurinn mjög sérstakur

Hann telur eitraða karlmennsku, ofbeldi, þöggun og meðvirkni meira ríkjandi í fótbolta en í öðrum íþróttum enda miklar vinsældir, peningar og völd í spilinu. Atvinnumennskuna segir Viðar svo vera annan heim út af fyrir sig þar sem menn geti auðveldlega misst tengsl við raunveruleikann.

„Afreksfótboltaheimurinn er mjög sérstakur og öll svona vandamál magnast svolítið upp þar. Þar er mikil firring og samkeppni bæði innan og utan vallar. Stjörnurnar verða stærri, valdameiri, ríkari, þurfa að hafa minna fyrir hlutunum og verða yfir ýmislegt hafnar. Þá eru þær oftar en ekki settar á stall og verða við það hálfósnertanlegar,“ segir Viðar.

„Þær lúta bara öðrum lögmálum því við viljum halda þeim á stalli og þá komast þær upp með alls konar hluti. Þegar krakkar fara mjög ungir út í atvinnumennsku þá missa þeir svolítið tengslin við sitt eðlilega samfélag, detta út úr skólakerfinu og fara inn í allt annan heim þar sem ríkja bara önnur gildi og viðmið.“

Segir frægðina stíga mönnum til höfuðs

Aðspurður segir Viðar erfitt að svara því hvers vegna menn, sem hafa allan heiminn í höndum sér, villast út af brautinni og beita ofbeldi. Umhverfið sem þeir hrærast í eigi þó vissulega stóran þátt í því, að sögn hans.

„Það er ákveðið ósýnilegt, félagslegt afl sem ýtir fólki í einhverjar áttir þar sem það missir bara tökin. Svo þegar menn verða stórir, frægir, dýrkaðir og dáðir þá stígur það þeim oft til höfuðs og þeir missa fótanna. Ég hef svo sem enga skýringu á því af hverju það gerist en mitt félagsfræðilega mat er að umhverfi þessara manna magni þetta upp og ýti þeim af réttri braut. Gildin og normin sem þeir lifa eftir dagsdaglega verða nefnilega svo skringileg og absúrd.“

Uppræta þurfi eitraða karlmennsku

Uppræta þurfi eitraða karlmennsku sem er samfélagslegt mein að sögn Viðars, en þar leiki íþróttahreyfingin mikilvægt hlutverk. 

Viðar trúir því einlæglega að KSÍ taki loksins á sínum málum en til þess að vinna sér inn traust samfélagsins aftur þurfi stjórn sambandsins þó að stíga fast til jarðar.

„Ég held að það þurfi að mennta, fræða og upplýsa alla þá sem koma að því að spila í landsliðinu. Taka strax alla sem koma í afrekshópana og skóla þá krakka til. Það er ekki nóg að kenna iðkendum að spila fótbolta. Það þarf að kenna þeim að vera góðar manneskjur, hvernig þeir eiga að haga sér og setja sig í spor annarra. 

Það má gera miklu betur í forvarnarfræðslu í þessum efnum svo að ný kynslóð leikmanna átti sig á því hvað það þýðir að spila fyrir landslið, hvaða merkingu það hefur að vera afreksmaður og fyrirmynd. Það mætti taka þessa fræðslu inn miklu fyrr svo hægt sé að breyta menningunni. Umbuna fyrir góða hegðun, góðan karakter og kenna þessum krökkum að það hefur afleiðingar að brjóta reglur eða norm í þessu samhengi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka