Allir Íslendingar farnir frá Afganistan

Búið er að koma þeim eina íslenska ríkisborgara sem vitað var um að væri enn staðsettur í Afganistan fyrir helgi úr landi. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmars­son, upp­lýs­inga­full­trúa ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, í samtali við mbl.is.

Einstaklingurinn starfaði hjá und­ir­stofn­un Atlants­hafs­banda­lags­ins en Sveinn hefur ekki frekari upplýsingar um hvar hann sé nú staðsettur. 

Búið er að koma þeim eina íslenska ríkisborgara sem vitað …
Búið er að koma þeim eina íslenska ríkisborgara sem vitað var um að væri enn staðsettur í Afganistan fyrir helgi úr landi. AFP

Engar leiðir til þess að aðstoða fólk úr landi

Spurður hvert sé framhaldið í móttöku flóttamanna frá Afganistan á Íslandi segir Sveinn að enn ríki óvissa í þeim málum. 

„Eins og sakir standa þá hafa íslensk stjórnvöld ekki neinar leiðir til þess að aðstoða fólk úr landi. Allar okkar samstarfsþjóðir eru farnar frá Afganistan,“ segir Sveinn og bætir við að ákvörðun stjórnvalda um að taka við allt að 120 flóttamönnum sé óhögguð.

„Framhaldið á hins vegar eftir að koma í ljós. Talíbanar hafa gefið til kynna að þeir ætli að heimila fólki að yfirgefa landið, annars vegar erlendir ríkisborgarar og hins vegar Afganir með pappíra frá tilvonandi viðtökuríki um að það verði tekið á móti þeim. Hvernig þaðan á síðan eftir að ganga er mjög erfitt að segja til um,“ segir Sveinn og bætir við að því bíði stjórnvöld átekta.

Hvaða áhrif hefur rýming Bandaríkjahers frá landinu á móttöku flóttamanna?

„Það að bandaríska herliðið sé farið frá Afganistan er í raun rót þess að okkar samstarfsríki eru ekki lengur að flytja fólk til og frá landinu. Við vorum að vinna í kappi við tímann í síðustu viku einmitt útaf því að brotthvarf herliðsins var fyrirsjáanleg fyrir 31. ágúst,“ segir Sveinn.

„Staðan er einfaldlega sú að hvorki íslensk stjórnvöld né norrænar þjóðir hafa eins og sakir standa leiðir til þess að aðstoða fólk úr landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert