Ekki velkomnir til Íslands án brýns erindis

Bandaríkjamenn standa undir meirihluta ferðamanna sem koma hingað til lands.
Bandaríkjamenn standa undir meirihluta ferðamanna sem koma hingað til lands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðleggingar Evr­ópu­sam­bandsins, um að óbólusettir bandarískir ferðamenn megi ekki ferðast til landa sambandsins nema af brýnni nauðsyn, munu að öllum líkindum einnig taka gildi hér á landi.

Þetta staðfestir dómsmálaráðuneytið eftir fyrirspurn mbl.is.

Eigi ekki við þá sem hafa búsetu hér

„Þessu var síðast breytt í júní þegar Bandaríkin fóru á þennan undanþágulista þannig að nú er í raun einfaldlega verið að taka þau af listanum,“ segir í svari ráðuneytisins en undanþágulisti ESB tel­ur nú aðeins 17 ríki eða svæði.

„Þar sem nú hefur ESB lagt til að taka út Bandaríkin, Ísrael, Kósóvó, Líbanon, Svartfjallaland og Norður-Makedóníu af undanþágulistanum munum við einnig fara eftir þeim tilmælum líkt og við höfum hingað til gert,“ segir í svari ráðuneytisins en listinn er einnig í gildi á Schengen-svæðinu.

„Það þýðir í raun að óbólusettir Bandaríkjamenn með engin brýn erindi eru ekki velkomnir hér á landi.“ 

Ráðuneytið tekur fram að takmarkanirnar eigi ekki við erlenda ríkisborgara sem hafa sannanlega búsetu hér á landi.

Ráðherra fær minnisblað í dag eða á morgun

„Þetta er ekki bindandi en þetta hefur verið afgreitt hér á landi vanalega með minnisblaði sem dómsmálaráðherra skrifar undir,“ segir í svari ráðuneytisins en minnisblaðið mun berast til ráðherra í dag eða í fyrramálið. 

Þó að Bandaríkin vanti á undanþágulista ESB þá hafi það ekki áhrif á millilendingar. 

„Við höfum ekki verið að skipta okkur af því hverjir eru í vélum sem eru að millilenda og halda svo áfram. Það er þá bara þeirra sem eru að taka við viðkomandi, ef það er í Evrópuríki þá lendir hann í vandræðum ef hann er óbólusettur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert