Háskóli Íslands veitti 37 nýnemum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði skólans við hátíðlega athöfn í dag. Styrkþegarnir koma úr 15 framhaldsskólum víða um land og innritast í 28 mismunandi námsleiðir á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands.
Segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands að í hópi styrkþega séu 14 dúxar og semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og árum.
Úthlutunarathöfnin fór nú fram í hátíðasal Háskóla Íslands í annað sinn en þetta var í 14. sinn sem styrkjum er úthlutað úr afreks- og hvatningarsjóði. Viðstaddir voru aðeins styrkþegar, rektor og stjórn sjóðsins en athöfninni var hins vegar streymt á netinu fyrir aðstandendur styrkþega og önnur áhugasöm.
Styrkirnir eru veittir nýnemum sem hafa náð „framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Í hópi styrkþega eru einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi.“
Hver styrkur nemur 375 þúsund krónum og er samanlögð styrkupphæð því nærri 14 milljónir króna.
Styrkhafarnir eru:
Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.
Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands í ár skipa Róbert Haraldsson, prófessor og sviðsstjóri kennslusviðs sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.