Lilja ánægð með næstu skref KSÍ

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Þeir eru að mínu mati að taka á þessu af festu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Hún ræddi við fulltrúa Knattspyrnusambands Íslands síðdegis í dag, en fyrir fundinn sagði Lilja að hann snerist um að fá yfirlit yfir hvað hefði átt sér stað og hver næstu skref verða.

Að sögn Lilju var fundurinn mjög málefnalegur en þar var ræddur faghópur sem KSÍ er að setja á laggirnar, en hann á að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þá segist Lilja ánægð með skrefin sem KSÍ hyggst taka og bjartsýn á að sambandið nái að taka málið föstum tökum.

Mikilvægt að fara í vegferð

Lárus L. Blöndal, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, var einnig viðstaddur fundinn og fór hann, að sögn Lilju, yfir aðkomu ÍSÍ að málinu.

Lilja segir það mikilvægt að faghópurinn sé settur á laggirnar og skoðað sé hvernig KSÍ hefur verið að bregðast við.

„Ég held að það sé mikilvægt að fara í þessa vegferð þar sem við sendum skýr skilaboð um hvernig við viljum hafa samfélagið okkar,“ segir Lilja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert