Starf pólitískra aðstoðarmanna er ekki glansmyndalífið sem margur ímyndar sér. Formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu og ráðherrar ráða til sín aðstoðarmenn, þingflokkar hafa til umráða starfsmenn og síðan starfar fólk innan skrifstofa stjórnmálaflokka.
Allir þessir starfsmenn mynda síðan heild sem heldur gangverki stjórnmálaflokka í nútímasamfélagi gangandi – fólkið á bak við tjöldin.
Freyja Steingrímsdóttir er aðstoðarmaður Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Hún segir aðstoð sína við Loga ekki ná til þaulskipulagningar hvers dag né til persónulegra haga en að hún bóki fundi, viðtöl og slíkt.
„Við erum oft að grínast; ég þoli ekki að keyra þannig að hann titlar sig sem bílstjórann minn,“ segir Freyja.
Ásamt Freyju ræða Kári Gautason, fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna og Ingvar P. Guðbjörnsson, upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins, við Karítas Ríkharðsdóttur um starfsemi stjórnmálaflokka.
Allt frá grasrót til þingmanna og ráðherra er tekið fyrir ásamt fjármálum flokkanna, innra skipulagi, kosningabaráttum, starfsemi í heimsfaraldri og mýtuna um reykfylltu bakherbergin.
Kári segir að starfsmenn Vinstri grænna á þingi hafi stundum þurft að grípa inn í „með skaðaminnkandi úrræði“ þegar þeir bókuðu fundi hvern ofan í annan. Að öðru leyti séu afskipti starfsmanna af dagbókum þingmanna í lágmarki.
Þættir Dagmála eru opnir áskrifendum Morgunblaðsins og má horfa á þáttinn í heild sinni hér. Kaupa má vikupassa hér.