Þegar rýnt er í fylgi flokka, sem hyggjast bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi alþingiskosningum, blasir við að meiri munur er að verða á kjördæmunum en verið hefur. Sem fyrr er munurinn á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni greinilegastur, en auðvelt er að koma auga ýmsa strauma aðra. Ekki er að sjá að fjölgun framboða hafi orðið til þess að slétta yfir slíkan mun með því að gefa kjósendum fleiri kosti í kjörklefanum.
Í Morgunblaðinu í dag er að finna yfirlit yfir fylgi flokkanna í einstökum kjördæmum, ásamt þingmannaútreikningi. Þar er byggt á tölum úr þremur síðustu skoðanakönnunum, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is.
Meðal þess sem þar blasir við, er sterk hægri undiralda í Suðurkjördæmi, þar sem vinstriflokkarnir ná sér ekki á strik, en einnig má nefna hvernig Viðreisn nær lítilli viðspyrnu utan höfuðborgarsvæðisins meðan Framsóknarflokkurinn á við gagnstæðan vanda að etja sem oft áður. Sömuleiðis eiga Píratar mun minna fylgi að fagna á Norðurlandi en annars staðar.
Það eru helst fylgisminnstu flokkarnir, sem státað geta af sæmilega jöfnu fylgi eftir kjördæmum, en jafnvel þeir eru allir með eitt kjördæmi öðrum sterkara.
Fylgi flokka er almennt orðið ákaflega misskipt eftir kjördæmum. Segja má að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn, sem njóti verulegs stuðnings í öllum kjördæmum, en þó er fylgi hans í höfuðborginni merkjanlega lægra en í flestum kjördæmum öðrum. Lægst er það þó á Norðausturlandi, sem má kalla undantekningu.
Það er í sjálfu sér ekki nýtt að flokkum vegni misvel í hinum ýmsu kjördæmum, það er einmitt ein helsta forsenda þeirra, að þau hafi misjafna hagsmuni og samsetningu, sem ólík framboð og frambjóðendur séu misvel til fallin að gæta eða vera fulltrúar fyrir. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn alla tíð átt meira fylgi að fagna utan höfuðborgarsvæðisins en innan.
Það er hins vegar athyglisvert að sjá hvernig sá munur virðist fremur ágerast en hitt, þrátt fyrir að sennilega hafi hagsmunir byggðarlaganna ekki verið jafnsamofnir áður, samgöngur og tækniframfarir hafa jafnað margvíslegan aðstöðumun mikið og á sinn hátt flatt út samfélagið. Þess gætir lítt í stjórnmálum, þar sem fæstir flokkar hafa jafna skírskotun í kjördæmunum.
Hér að ofan gefur að líta hvernig fylgi flokkanna skiptist í einstökum kjördæmum, en þar er notast við samanlagðar niðurstöður úr þremur könnunum, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið.
Rétt er að ítreka að þær sýna því ekki vel fylgisþróun síðustu viku, en veita hins vegar ábyggilegri niðurstöður í fámennari kjördæmum en ella.
Þar má sjá ýmsar spegilmyndir. Öfugt við Framsókn á Viðreisn þannig nær aðeins fylgi á höfuðborgarsvæðinu, en Píratar höfða greinlega mun síður til Norðlendinga en annarra. Samfylkingin er hins vegar með sitt langsterkasta vígi í Norðausturkjördæmi með nær 18% en meðaltalið annars staðar undir 10%.