Heilbrigðisráðherra felldi það skilyrði úr gildi í dag að fyrir endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands þurfi sjúkraþjálfari að hafa starfað í að minnsta kosti 80% starfi í tvö ár eftir löggildingu.
Ásamt því framlengdi heilbrigðisráðherra gildistíma reglugerðar um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands til 31. október.
Reglugerðin hefði að óbreyttu runnið út um þessi mánaðarmót. „Vonir stóðu til að samningar næðust milli Sjúkratrygginga Íslands og sjúkraþjálfara fyrir þann tíma, en það gekk ekki eftir. Því var ákveðið að framlengja gildistíma reglugerðarinnar þannig að þau sem þurfa á þessari mikilvægu þjónustu njóti greiðsluþátttöku sjúkratrygginga, þrátt fyrir að samningur um þjónustuna liggi ekki fyrir,“ segir í tilkynningu um reglubreytinguna á vef Stjórnarráðsins.