Þrír nemendur Jafnréttisskólans enn í Afganistan

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Alþjóðlega jafnréttisskólans.
Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Alþjóðlega jafnréttisskólans. Ljósmynd/Aðsend

„Í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld ákváðu að taka á móti fólki starfsfólki sem vann með og fyrir Atlantshafsbandalagið og fyrrverandi nemendum Jafnréttisskólans óskaði borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins eftir aðstoð okkar við að staðsetja nemendur okkar og hafa samband við þá,“ segir Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Alþjóðlega jafnréttisskólans, í samtali við mbl.is og nefnir að það hafi ekki verið auðvelt verkefni þar sem margir voru komnir í felur eða voru þegar á flótta. 

„Netsambandið er lélegt og rafmagni slær út. Sum þeirra höfðu einnig lokað samfélagsmiðlum sínum.“

Íslensk stjórnvöld greindu frá því í síðustu viku að tekið yrði á móti allt að 120 Afgönum, þar á meðal fyrrverandi nemendum Jafnréttisskólans. 

152 nemendur útskrifast frá skólanum

Alþjóðlegi jafnréttisskólinn sem er námsbraut við Háskóla Íslands heyrir jafnframt undir GRÓ – þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu. Markmið hans er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum menntun og þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.

Irma segir að skólinn hafi stækkað jafnt og þétt. Fyrstu árin voru nemendur á bilinu 6 til 14 en síðastliðin ár hefur hann útskrifað um 20 til 23 nemendur á ári úr 30 eininga diplómanámi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.

Alls hafa 152 nemendur verið útskrifaðir frá því að skólinn tók til starfa og hafa þeir komið frá 25 löndum sem öll eru skilgreind sem þróunarlönd eða átakasvæði (fyrrverandi og núverandi), þ.m.t. Afganistan, Palestínu, Úganda, Mósambík og Malaví. Í byrjun þessa mánaðar tók skólinn á móti 20 nemendum og von er á 25 nemendum í janúar 2022.

Tíu afganskir nemendur

„Ferlið hjá okkur er almennt þannig að við komum á samstarfi við stofnanir og félagasamtök í samstarfslöndum okkar sem síðan tilnefna nemendur. Þeir sækja síðan formlega um að komast í námið. Þótt uppfylla þurfi strangar kröfur til að fá inngöngu hefur umsóknum fjölgað mikið á undanförnum árum.“  

Þegar skólinn tók til starfa árið 2009 sóttu hann tveir Afganar sem voru báðir heilbrigðisstarfsmenn. „Næstu ár á eftir fengum við einn til tvo nemendur á ári frá Afganistan. Ástandið í landinu var þó mjög erfitt og flókið og það þurfti mikla eftirfylgni og góð tengsl til þess að tryggja sterkar tilnefningar og tryggja að hingað yrðu sendir nemendur sem eigi erindi,“ segir Irma en skólinn gerði um tíma hlé á samstarfi sínu við landið.

Frá og með árinu 2017 hafi afganskir nemendur verið valdir í samstarfi við Háskólann í Kabúl og Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og með stuðningi evrópskrar styrkjaáætlunar.  

Alls hefur skólinn útskrifað tíu afganska nemendur, en eftir valdatöku talíbana tókst að bjarga tveimur þeirra úr landi og komu þeir til Íslands ásamt fjölskyldum sínum í lok síðustu viku.

Skammur tími til þess að bregðast við

Hún segir að þrír aðrir nemendur hafi þegar verið á leið út úr landi og fengið hæli annars staðar, þar á meðal einn nemandi sem átti að sækja námið hér á haustmisseri. Þá voru þrír aðrir sem höfðu flúið Afganistan fyrir einhverju síðan, annar þeirra býr á Íslandi.

„Aðgerðin sem við unnum að í samstarfi við utanríkisráðuneytið í síðustu viku sneri að þremur fjölskyldum. Við höfðum gríðarlega þröngan glugga, en það það hjálpaði að fjölskyldurnar bjuggu nálægt flugvellinum í Kabúl. Á þriðjudag í síðustu viku fengum við þær upplýsingar að það yrði bregðast við á næstu tíu klukkustundum,“ segir Irma og nefnir að vitað hafi verið af nemendum í sveitahéruðum í Afganistan, en engin leið var að ná til þeirra í tæka tíð.

„Við vorum í góðu sambandi við þessar þrjár fjölskyldur í Kabúl og áttuðum okkur á að þær voru mjög óttaslegnar. Tvær konurnar ákváðu að láta reyna á hvort hægt yrði að koma þeim úr landi, sem tókst aðfaranótt miðvikudags, en sú þriðja ákvað að yfirgefa flugvallarsvæðið í Kabúl vegna þess að hún hafði frétt af hótunum um árásir þar. Hún er því enn stödd í Afganistan – og ég hef áhyggjur af henni,“ segir Irma og nefnir að sá nemandi hafi beitt sér í langan tíma fyrir réttindum kvenna á sínu sérsviði.

Vonast eftir að leiðir opnist

Í Afganistan eru því enn þrír nemendur Jafnréttisskólans. „Tvö þeirra búa á landsbyggðinni og staða þeirra óljós. Síðan er þessi fjölskylda frá Kabúl sem við reyndum að aðstoða en tókst ekki,“ segir Irma og bætir við að þau vonist enn eftir að koma henni út úr landi ef einhverjar leiðir opnast.  

Hvað tekur við hjá þessum tveimur sem eru nú þegar komnar til landsins?

„Þær munu fara í gegnum það ferli sem flóttamenn fara í gegnum hér með aðstoð Rauða krossins og félagsmálaráðuneytisins. Okkar hlutverk verður að vera til stuðnings fyrir þær og sýna vináttu,“ segir Irma og nefnir að vonandi komi það til með að nýtast þeim að þær hafi þegar búið á Íslandi sem nemendur og þekki því aðstæður.

„Ég efast ekki um að þær hafi margt fram að færa til íslensks samfélags ef þær kjósa að búa hér til frambúðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert